141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:10]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Mér finnst hinn efnahagslegi þáttur hljóta að vera ákveðinn hluti af þessu máli sem við getum ekkert horft fram hjá, þ.e. hvernig við getum skapað störf í samfélaginu. Við höfum akkúrat horft upp á byggingariðnaðinn og iðnaðarmenn fara á undangengnum árum í stórum stíl úr landi, til Noregs og annarra Norðurlanda, þar sem þeir eru að vinna vegna þess hversu mikið hefur dregist saman í þessum iðnaði hér á landi.

Mér þykir því mjög áhugavert að sjá úttekt sem ráðgjafarfyrirtækið Gamma gerði með því að færa þessa sex vatnsaflsvirkjunarkosti úr nýtingu yfir í bið. Þeir reiknuðu út að það gæti minnkað fjárfestingu í orkufrekum iðnaði og afleiddum fjárfestingum um hvorki meira né minna en um 270 milljarða kr. á fjögurra ára tímabili. Hv. þingmaður hefur rætt heilmikið um ríkisfjármál og efnahagsmál almennt á þann veg að skylda stjórnvalda sé fyrst og fremst sú að koma fjárfestingu af stað í samfélaginu, ríkisstjórnin segir það reyndar líka á tyllidögum, en maður veltir fyrir sér þegar svona hugmyndir eru lagðar á borð, farið er gegn ráðum okkar helstu sérfræðinga sem hafa unnið að þessu máli allt frá því á síðustu öld, að í ofanálag hafi þessi stefnumörkun Vinstri grænna þau áhrif að á fjögurra ára tímabili verði fjárfesting jafnvel hátt í 300 milljörðum kr. minni en ella hefði orðið, akkúrat á þeim tíma sem við þurfum meiri fjárfestingu. Við erum búin að ræða um fjárlög, hversu erfitt það er þegar ríkissjóður er svona tekjulítill. Þess vegna er mér alveg fyrirmunað að skilja hvers vegna þetta er lagt til.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún hafi einhver betri svör en ég hef á reiðum höndum (Forseti hringir.) um þessa stefnumörkun stjórnarinnar.