141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar stórt er spurt er fátt um svör. Nei, ég get ekki útskýrt þessa stefnumörkun, mér finnst hún vera röng. En hinn efnahagslegi þáttur sem hv. þingmaður nefnir er nokkuð sem við verðum að taka alvarlega. Hæstv. umhverfisráðherra talar mikið um komandi kynslóðir og sjálfbærni. Það verða engar komandi kynslóðir í landinu ef við sköpum ekki þau tækifæri í atvinnu og efnahagslegu tilliti sem unga fólkið okkar getur fengið annars staðar.

Hv. þingmaður nefndi iðnaðarmenn og að þeir flyttu unnvörpum til útlanda. Þá kemur ríkisstjórnin og segir: Jú, jú, við ætlum að skapa störf, við ætlum að skapa 2.200 störf á kostnað skattborgaranna. Störf sem úrræði, ekki störf sem verða til við verðmætasköpun heldur störf á kostnað skattborgaranna er efnahagsstefna sem gengur ekki upp, það er ekki flóknara en svo.

Síðan varðandi það sem ég kom aðeins inn á í ræðu minni, sambandið á milli þess að nýta náttúruna og njóta hennar. Reykjanes, svo að ég nefni það aftur, er skýrasta dæmið um þetta. Ég nefndi Bláa lónið áðan. Núna er að verða til orkugarður, auðlindagarður á Reykjanesinu þar sem affall eins fyrirtækis verður að auðlind annars. Við sjáum það í fiskeldinu sem er að verða til við Reykjanesvirkjun þar sem heita vatnið sem rennur til sjávar er kjörlendi fyrir ræktun sjaldgæfrar fisktegundar sem við þekkjum ekki einu sinni hér. Við sjáum það líka í fyrirtækinu Carbone Recycling sem tekur affall frá Svartsengi til þess að búa til umhverfisvænt eldsneyti. (Forseti hringir.) Svona nýtum við náttúruna (Forseti hringir.) og njótum hennar.