141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:20]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vakti athygli á máli sem ekki hefur komið mikið til umræðu en ég hyggst gera síðar að umræðuefni. Það varðar það hvaða verksvið er í raun verið að fela hinni nýju verkefnisstjórn. Nú er gert ráð fyrir því að skipuð verði ný verkefnisstjórn þegar málið hefur verið afgreitt og búið að stafa vinnubrögðin ofan í þá verkefnisstjórn og segja hvað hún eigi að leggja áherslu á. Látum það nú vera. Það sem vekur hins vegar athygli er að í 9. mgr. í almennum athugasemdum í þingsályktunartillögunni segir svo um skipan nýrrar verkefnisstjórnar, með leyfi virðulegs forseta:

„Vakin er athygli á því að í kjölfar samþykktar þingsályktunartillögu þessarar verður næsta verkefnisstjórn skipuð í samræmi við 8. gr. laga nr. 48/2011. Mun hún vinna með þá virkjunarkosti sem eru í biðflokki sem og aðra virkjunarkosti […] og meta hvort ástæða sé til að leggja fyrir ráðherra rökstudda tillögu um breytta eða endanlega flokkun í samræmi við lögin.“

Síðan kemur mjög athyglisverð setning þar sem lagt er til að þeim sértæku rannsóknum sem lagt er til að gerðar verði í Þjórsá verði hrint í framkvæmd af verkefnisstjórninni og ný tillaga byggð á niðurstöðum þeirra.

Hér er verið að útvíkka verksvið verkefnisstjórnarinnar langt út fyrir það sem kveðið er á um bæði í 9. og 10. gr. laganna um verndar- og orkunýtingaráætlun. Með öðrum orðum er verið að fela verkefnisstjórninni að vinna verkefni sem hingað til hafa verið unnin af framkvæmdaraðila. Þarna er greinilega verið að fitja upp á nýjung sem ekki er í samræmi við lögin sjálf. Verið er að útvíkka verksvið verkefnisstjórnarinnar og hún á að vera hér einhver sjálfstæður rannsóknaraðili. Hún á fara í stórkostlegar rannsóknir sem við vitum að kosta milljónir og milljónatugi í mörgum tilvikum. Þá vaknar spurningin: Hver á að fjármagna það? Er þetta sjálftökuaðferð verkefnisstjórnarinnar sem viðkomandi framkvæmdaraðila verður síðan falið að greiða?