141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að fram undir þetta hafi verkefni verkefnisstjórnarinnar verið ágætlega skilgreint. Mér er ekki kunnugt um að neinn ágreiningur hafi verið um hvert væri verksvið verkefnisstjórnarinnar og hvert væri verksvið framkvæmdaraðila. Framkvæmdaraðilarnir hafa gengið í að gera þessar rannsóknir. Þeir hafa falið það óháðum vísindamönnum og vísindamennirnir hafa síðan kynnt niðurstöður sínar. Síðan hefur framkvæmdaraðilinn auðvitað yfirfarið þær án þess að gera á þeim breytingar, því að matið er verk sjálfstæðra vísindamanna. Þá hefur verkefnisstjórnin haft það verkefni að fara yfir þær upplýsingar sem fyrir liggja og aðrar upplýsingar sem fram hafa verið reiddar af öðrum aðilum.

Það er alveg nýtt að verkefnisstjórninni sé með einhverjum hætti falið að standa fyrir sértækum rannsóknum sem gera skal á einstökum virkjunarkostum. Þá vakna auðvitað spurningar um það með hvaða hætti staðið skuli að því.

Jafnframt er kveðið á um það í þingsályktunartillögunni að vinnunni eigi að ljúka býsna hratt, að verkefnisstjórnin skuli skila niðurstöðum sínum með áfangaskýrslu um virkjunarkosti í biðflokki fyrir 1. september 2013. Það er ekki mjög langt í þá dagsetningu og þeim mun frekar er það mjög sérkennilegt.

Ég hef áhyggjur af því í fyrsta lagi að menn skuli vera að reyna að feta sig inn á alveg nýja braut með verkefnisstjórninni vegna þess að fyrra fyrirkomulag hefur reynst vel. Í öðru lagi vaknar sú spurning sem ekki hefur verið svarað: Hver á að greiða þetta? Er þetta einhvers konar sjálftaka verkefnisstjórnarinnar sem hún getur síðan framvísað í reikningaformi til virkjunaraðilans? Síðan er auðvitað hitt sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. ef menn ætla að fara að teygja sig ofan í litlar bændavirkjanir er náttúrlega — ég vil nú ekki segja fj… laus — vitum við (Forseti hringir.) ekki hvar það endar.