141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:27]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Í þeirri þingsályktunartillögu sem lögð var fram af hálfu umhverfisráðherra kemur ekkert fram um hvaða kostnaður menn telja að falli við þau auknu verkefni sem verkefnisstjórnin á að hafa með höndum. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi það áðan að fela á verkefnisstjórninni sérstakar áframhaldandi rannsóknir í Þjórsá. Hvað kosta þær? Hversu umfangsmiklar verða þær? Hver á að greiða fyrir þær? Fela á verkefnisstjórninni að skoða hvort smærri virkjanir eigi að falla undir verksvið nefndarinnar. Hvert leiðir það okkur? Mun það leiða það af sér að menn sem virkja bæjarlækinn þurfi að leita ásjár hjá verkefnisstjórninni? Hvað mun slíkt álag þýða í rekstrarkostnaði við verkefnisstjórnina?

Síðan hefur líka komið fram að að bæta á við verkefnum er snerta vind og sjávarorku. Allt hlýtur það að kosta fjármuni og menn hljóta að leggja fram einhverjar hugmyndir og tillögur um hver reikningurinn verður við það og hver á að greiða hann. Við þurfum að hafa það á hreinu því að væntanlega viljum við að gengið verði sómasamlega frá málum. Við höfum ekki fengið svör við þeim spurningum hér.

Það hefði nú einhvern tímann þótt ástæða til þess við afgreiðslu mála frá Alþingi að menn vissu alla vega hvað pakkinn kostaði, hver verðmiðinn væri. Að sjálfsögðu viljum við fá svör við því áður en við klárum umræðuna því að 3. umr. fjárlaga á eftir að fara fram. Eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson benti á á verkefnisstjórnin að hafa hröð handtök þannig að þetta fellur væntanlega innan fjárlaga næsta árs. Ég held að komið hafi í ljós að fjölmörgum spurningum er ósvarað um þetta stóra mál.