141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir að reyna að greina alla vega frá sinni afstöðu til þessara stafliða er varðar það sem meiri hlutinn beinir til ráðherra og Alþingis, þ.e. hvort smærri virkjanir eigi að fara í þau verkefni sem verkefnisstjórn er falið að ræða um.

Í annan stað hvað varðar þennan á-lið, hvort vindorka og sjávarfallaorka eigi að falla undir þessi verkefni. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í það vegna þess að seinni málsliðurinn í þeirri ábendingu meiri hlutans felur í raun í sér, held ég, grundvallarbreytingu á verkefni verkefnisstjórnar. Ég les þetta að minnsta kosti þannig að það eigi að vera hlutverk verkefnisstjórnar að meta þörfina á jarðvarma- og vatnsaflsvirkjunum. Ég tel að þarna sé seilst ansi langt í að breyta hlutverki verkefnisstjórnar, ef þetta er réttur skilningur. Ég hef ekki fengið neinar útskýringar á þessu frá þeim flutningsmönnum nefndarálitsins sem hér hafa talað. Telur hv. þingmaður að þarna sé verið að leiða málið inn á rétta braut? Eigum við að framselja valdið til að gefa framkvæmdaleyfi? Ég skil þetta þannig að þarna eigi verkefnisstjórnin að vera komin það langt að hún ákveði: Nú þarf 10 megavött í viðbót og þá þurfum við að finna einhverjar virkjanir sem passa í það. Það er ekki hlutverk verkefnisstjórnar og alls ekki hugsunin á bak við þetta allt, heldur einungis að skoða þá kosti sem eru mögulegir út frá þeim sjónarmiðum sem birtast í lögunum, en ekki hvort þörf sé á að ráðast í frekari virkjunarframkvæmdir heldur aðeins að fara faglega yfir það hvar er best að virkja út frá þeim sjónarmiðum sem við eiga og hvar er best að vernda.