141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:33]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eigi að bæta öllum þessum verkefnum við verkefni verkefnisstjórnar er alveg ljóst að hún getur ekki skilað af sér í tíma. En til að bæta þessu við verkefni verkefnisstjórnar þarf að breyta lögunum eða gera skipunarbréf af hálfu ráðherrans til verkefnisstjórnar sem ég tel að sé ekki stjórnsýslulega rétt. Við erum einfaldlega ekki komin það langt í rannsóknum á vindorku og sjávarfallaorku að efni sé til að gera sérstaklega rammaáætlun þar um. Auðvitað verður það gert í framtíðinni, ég er svo sem ekkert andsnúin því. Það sem ég er að gera athugasemdir við er sú hugsun að vinna verkefnisstjórnar eigi einhvern veginn að fela í sér mat á því hversu mikil orkuþörf er. (Gripið fram í.) Það kemur störfum verkefnisstjórnar í rauninni ekki við. Verkefnisstjórnin er að skoða kostina út frá náttúruvernd, út frá nýtingu og reyna að raða upp hvað sé gáfulegt að gera í stóra samhenginu. Að breyta því eins og mér finnst imprað á í þessum tillögum er mjög alvarlegur hlutur og kallar á mjög langa umræðu.

Eins og ég hef sagt áður í umræðunni þá er ég með 125 spurningar sem ég þarf að fá svör við og vonast til að mér gefist tími til þess að koma þeim öllum á framfæri vegna þess að það er afskaplega stuttur tími sem manni er ætlaður hér. Ég er mjög ánægð með að hv. þingmaður hafi tekið þessi atriði upp í umræðunni og sé farinn að velta þeim fyrir sér. Ég vonast til að það skili sér í umræðu fleiri þingmanna sem þurfa vissulega að skoða þessi atriði og hafa skoðun á því hvort hér sé verið að stefna í rétta átt. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því áður en (Forseti hringir.) þessi umræða klárast.