141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:50]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er lögmæt spurning. Mér finnst sú grein sem hv. þingmaður vísaði í lýsa nokkuð því andrúmslofti sem ríkir í kringum þessa rammaáætlun, þ.e. að það sé raunverulega ekki vilji meiri hlutans eða þeirra sem standa að þessu að teygja sig neitt í nýtingarátt. Þetta virðist allt saman ganga út frá því að reyna að friða sem mest þannig að hér verði ekki byggðar fleiri virkjanir og þá með afleiðingum sem ég talaði um í ræðu minni.

Það er eitt sem mælir með stöðugu endurmat á nýtingarflokki, biðflokki og verndarflokki, það eru breytingar á tækni. Hugsum okkur að ný bortækni gerði það að verkum á jarðhitasvæðum að hægt væri að nýta orku sem væri undir einhverri náttúruperlu án þess að það sæi nokkuð á henni og nokkur yrði var við að þessi nýting ætti sér stað neðan jarðar, þá væri sjálfsagt að endurskoða hlutina og taka þann kost úr verndarflokki yfir í nýtingarflokk. Það væri að því gefnu að hægt væri að tryggja að þetta gerðist neðan jarðar og menn yrðu á engan hátt varir við að það væri verið að nýta orkuauðlindina. Auðvitað á þetta allt saman að vera í stöðugu endurmati.