141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:55]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson fjallaði einmitt um þetta í ræðu sinni hér fyrr í dag og benti á þann fáránleika sem gæti komið upp þegar þeir sem hafa hug á því að virkja bæjarlækinn þurfa að sækja til verkefnisstjórnar og þar séu fjórir hópar sem kanni áhrif á náttúru og menningarverðmæti, hagkvæmni virkjunarkostsins, efnahagsleg áhrif hans, áhrif á ferðaþjónustu, útivist og annað slíkt. Ef maður hefur hlutverk verkefnishópanna í huga og hvernig vinna þeirra fer fram blasir fáránleiki málsins við. Þess vegna hlýtur svarið við þessari spurningu sem varpað er fram í greinargerð þingsályktunartillögunnar að vera nei. Sá sem skrifaði þetta hlýtur að hafa getað svarað þessari spurningu sjálfur. Auðvitað er engin ástæða til að huga að þessu. Núna er þetta þannig að ef maður vill virkja bæjarlækinn sækir maður um virkjunarleyfi til Orkustofnunar og sækir síðan um leyfi til skipulagsyfirvalda í sveitarfélaginu. Það er sett inn á aðalskipulag og þá er hægt að virkja. Það er ekki, eins og virðist liggja í þessum orðum, algjörlega eftirlitslaust verið að virkja bæjarlæki um allt land. Það er ekki einfalt ferli og það þarf leyfi til þess. En að ræsa út verkefnisstjórn í rammaáætlun til að virkja bæjarlækinn er ómöguleg hugmynd.