141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir hvernig stjórnarflokkarnir ákváðu að semja um það hvernig rammaáætlun ætti að líta út, væntanlega til að mæta ákveðnum sjónarmiðum innan flokkanna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það hvað hafi ráðið því að menn fóru í þá vegferð að færa virkjanirnar í Þjórsá, allar með tölu, í annan flokk. Getur verið að það hafi eitthvað með líf ríkisstjórnarinnar að gera? Flestir höfðu mælt með því að þegar tillagan kæmi frá verkefnisstjórninni og frá formannahópnum eða hvað hann kallaðist, yrði hún lögð fyrir Alþingi í þeirri mynd. Síðan þekkjum við hvað gerðist eftir það. Ráðherrar Vinstri grænna og Samfylkingar, umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra á þeim tíma — ætli það heiti ekki atvinnuvegaráðherra í dag — fóru yfir málið. Þá voru augljóslega settar fram kröfur um að þessir kostir ættu að fara í þennan flokk og slíkt.

Hvað getur hafa legið að baki þessu? Manni finnst mjög óeðlilegt að fara þessa leið þegar verið er að reyna að ná sátt milli sem flestra þingmanna, sátt um að leggja fram fyrstu rammaáætlunina, sem ég held að sé mjög mikilvægt, hvernig sem menn vinna þetta í framhaldinu. Hvað býr að baki? Mig langar að ræða það við hv. þingmann því að ég held að það sé nauðsynlegt fyrir söguna, fyrir þingtíðindin, að fara vandlega yfir þetta upp á framtíðina og hvernig bregðast eigi við í framhaldinu þegar ný rammaáætlun verður komin.