141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem nú upp og langar í raun til að þakka hv. þingmanni, fyrst náttúrlega fyrir ræðuna og líka fyrir orð hans um Villinganesvirkjun í Skagafirði sem er mjög hagkvæm virkjun, sem mun og hefur mjög lítil umhverfisáhrif. Þetta er virkjun þar sem hugmyndin er að stífla í gili, þar verður til lón og undir lónið fer mjög lítið af landi, það eru aðallega gil sem fyllast. Jú, ég viðurkenni að það er eftirsjá að giljunum því að þau eru falleg en á móti kemur að við fáum allt að 40 megavött af orku.

Mig langar að spyrja hv. þingmann af því að hann þekkir greinilega ágætlega til þeirrar virkjunar: Hvernig líst honum á þá hugmynd, sem við höfum reyndar barist fyrir lengi á þessu svæði, að orkan úr fallvötnunum í Skagafirði og þar með talið orkan úr Villinganesvirkjun verði nýtt til hagsbóta fyrir héraðið, þ.e. að þarna verði í raun helst ekki virkjað nema svæðið njóti einhvern veginn góðs af því? Þá horfum við vitanlega til þess að einhver nýtingarkostur verði fyrir valinu.

Auðvitað er það þannig að verði farið í hinar virkjanirnar líka er það svo mikil orka að hún mun aldrei eða seint í það minnsta — ef það væri hægt að finna rök fyrir því að nýta hana alla þarna heima fyrir. Ég vil bara spyrja hv. þingmann út í þessar hugmyndir. Hvort hann geti tekið undir að það sé eðlilegt að horfa til þess að nýta þá orku sem næst staðnum þar sem hún verður til og að samfélagið sem lætur af hendi ákveðinn hluta af sinni náttúru fái í staðinn orku og njóti þess með einhverjum beinum hætti vegna þess að það er að sjálfsögðu líka hagkvæmt að nýta orkuna sem næst uppruna hennar?