141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu rétt að ákveðið afgjald, ef ég má orða það þannig, skattar af byggingum sem eru reistar renna til þess sveitarfélags sem byggingin er í. Það er hins vegar hugmynd sem við höfum verið með til dæmis þegar við vorum í sveitarstjórn, að reyna þá að nota tækifærið þegar verður farið í að framleiða orku til að búa til enn þá fleiri störf og meiri hagvöxt í héraðinu. Ég held að það sé allt í lagi að þau svæði þar sem er verið að nýta orkuna fái í það minnsta tækifæri til að sýna fram á að hægt sé að nýta hana á þeim stað með hagkvæmari hætti en að flytja hana um langan veg. Að sjálfsögðu þarf að vera til næg orka fyrir höfuðborgarsvæðið og þau fyrirtæki sem hér eru og kunna að rísa, það er kórrétt allt saman.

Hv. þingmaður nefndi líka í ræðu sinni að þingmenn hefðu eðlilega mismunandi skoðanir á rammaáætlun, á því hvað er hægt að virkja, nýta o.s.frv. Til þess var rammaáætlun að sjálfsögðu sett fram, til að reyna að skipuleggja þetta og reyna að ná saman ólíkum sjónarmiðum um nýtingu, verndun o.s.frv. Mér finnst leitt að það hafi verið sett í uppnám með þessum skiptum á milli ráðherranna. Það er líka vert að hafa það í huga að meðan framsóknarmenn og sjálfstæðismenn voru með það á sinni könnu og svo Samfylking og sjálfstæðismenn, ríkti þokkalegur friður, ég ætla ekkert að taka sterkar til orða, um verkefnið. Svo er það núna þegar Samfylking og Vinstri græn taka við verkefninu að í rauninni, ég ætla bara að orða það þannig, fer allt í bál og brand vegna þess að þá fara menn út úr sáttaferlinu og inn í pólitíska ferlið sem átti ekki að eiga sér stað.