141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það þannig að allur orkugeirinn á Íslandi er meira og minna rekinn af opinberum aðilum og þar vill oft brenna við að menn láti ekki kostnað myndast þar sem hann á að myndast, t.d. í viðnámi í leiðslum og öðru slíku. Það getur verið að það skaði einmitt þá hugsun að menn noti orkuna í héraði. Ef þetta væri hreinlega rekið af einkaaðilum með hagnaðarsjónarmið í huga, sem er alveg hægt og ég hef bent á leið til þess með því að selja orkuleyfið til 40 ára og síðan aftur og aftur, þá mundu menn virkilega skoða hvað það kostar mikið að flytja orkuna suður á Reykjanes eða eitthvað annað og hvað er hægt að selja hana mikið ódýrar í Skagafirði, ef við nefnum þá sérstöku virkjun. Ég held nefnilega að landsbyggðin mundi græða á því ef slík hugsun kæmi fram.

Varðandi það hvort menn ættu að skoða aðkomu landsbyggðar eða héraða að virkjunum finnst mér að ef menn færu virkilega að skoða auðlindina, aflið í Jökulsánum í Skagafirði, sé spurningin: Á héraðið einhverja hlutdeild í þeirri auðlegð? Við vitum það að ein hagkvæmasta jarðvarmavirkjun á landinu er einmitt hjá Sauðárkróki. Það er alhagkvæmasta jarðvarmavirkjunin og ætti að vera langsamlega ódýrust. Þá er það spurningin: Hver á þá auðlind, er það ekki Skagafjörður? Væntanlega. Ég tel að þannig gæti maður sagt að héruðin ættu að eignast ákveðna hlutdeild í auðlind eða auðlegð sem er innan þeirra.