141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:31]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég hef áður sagt að ég líti svo á að andsvör séu sérstaklega ætluð þingmönnum úti í sal til að spyrja þann hv. þingmann sem hefur nýverið flutt ræðu spurninga en ekki ætluð fyrir þingmenn til að svara spurningum sem til þeirra hefur verið beint þannig að ég vil bara ítreka, fyrst þetta kom upp, að ég hyggst svara í sérstakri ræðu undir lok þessarar umræðu þeim spurningum sem beint er sérstaklega til mín. Þá get ég komið að ýmsum spurningum sem bornar eru upp.

Ég vil hins vegar nýta ferðina núna til að koma inn á eitt atriði sem hv. þm. Pétur Blöndal snerti á. Það varðar biðflokkinn og hefur ítrekað komið upp í umræðunni, þ.e. hvers vegna ekki eigi að opna biðflokkinn miklu meira fyrir rannsóknum. Þetta fer auðvitað alveg eftir því um hvers konar rannsóknir er að ræða. Hérna þurfum við að vanda okkur. Rannsóknir á háhitasvæðum hafa mjög mikið óafturkræft og alvarlegt rask í för með sér sem í reynd eyðileggur svæðin, eins og við Hellisheiðarvirkjun sem hv. þingmaður hefur réttilega bent á. En það gerist líka þegar um rannsóknarboranir og rannsóknir á háhitasvæðum er að ræða. Hér er um að ræða annars konar ferli þegar kemur að vatnsafli. Rannsóknir varðandi orkuna hafa augljóslega ekki jafnmikinn eyðileggjandi mátt í för með sér eins og rannsóknir á háhitasvæðum.

Þess vegna ber okkur skylda, hvað varðar biðflokkinn, til að fara mjög varlega. Ég vildi bara snerta á þessu og vita hvort hv. þingmaður væri sammála mér um þessi atriði.