141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:35]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Varðandi þetta með rannsóknirnar á háhitasvæðunum held ég að ef til dæmis hv. þingmaður færi á Þeistareyki þar sem öllu svæðinu hefur verið raskað, allt í þágu rannsókna, mundi hann sjá hvað um er að ræða. Það er ekki auðvelt að taka til baka þau spjöll sem þar hafa verið unnin. Þetta snýst ekki um eina holu, þetta snýst um gríðarlegar framkvæmdir sem þessu fylgja, vegi og annað. Reyndar ætti það að vera þverpólitískt mál okkar allra að taka rækilega í gegn umgengni á háhitasvæðum vegna þess að staðreyndin er jafnframt sú að til dæmis á Þeistareykjum, þar sem þessar rannsóknir eiga að fara fram, hefði verið hægt að ganga miklu betur um þannig að minna rask hefði hlotist af jafnvel þótt fólk hefði sagt: Já, rannsökum svæðið, gerum þetta. Það er í alvöru átakanlegt hversu mikill subbuskapur og vanvirðing hefur stundum einkennt umgengni okkar á háhitasvæðum þegar raskið hefði getað verið minna. Það er hins vegar alltaf miklu meira en bara einhver einföld aðgerð sem hægt er að taka til baka þegar kemur að jarðhitanum.

Fyrir þá sem vilja fjárfesta í orkunýtingu skiptir vissan að mínu viti miklu máli. Óvissan er alltaf verst. Ef við vitum að við ætlum að vernda tiltekin svæði til framtíðar vegna þess að önnur stór og mikil rök lúta að því er miklu betra fyrir alla að segja það strax: Við ætlum að vernda. Hv. þingmaður hefur talað um Dettifoss, Gullfoss og slík svæði, það er miklu betra fyrir alla að vita að ákveðin svæði á að ekki að fara í. Þá geta menn einbeitt sér að öðrum svæðum.