141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í máli allmargra þingmanna, og ég minntist á í fyrstu ræðu minni, er verndar- og nýtingaráætlun vitanlega gríðarlega mikilvægt og stórt mál. Hugmyndin var að sjálfsögðu að ná eins mikilli sátt og hægt væri um þetta ferli allt og um niðurstöðuna og að finna út hvernig við sjáum fyrir okkur nýtingu á landinu til framtíðar, hvort sem það er orkunýting eða nýting út frá öðrum sjónarmiðum eins og að vernda náttúruna þar sem það á við. Það er í raun mjög göfugt að fara í þessa vinnu og búið að eyða miklum tíma í hana. Þar af leiðandi segi ég enn og aftur að það er sorglegt að við séum komin í þetta karp út af áætluninni í stað þess að menn hefðu getað gengið alla leið. Stjórnarflokkarnir bera að sjálfsögðu ábyrgð á því að staðan sé þessi, þeir bera ábyrgð á því að sáttin sem var möguleg varð að engu. Það er þá væntanlega þeirra að reyna að ná sátt um lúkningu á málinu, en á það hefur ekki verið reynt, ekki hefur verið reynt að gera það.

Hér hefur verið spurt um nokkur atriði en kannski ekki fengist viðhlítandi skýringar á. Menn hafa velt fyrir sér því sem kallað er „buffer zone“, hvernig sem á nú að þýða það á íslensku, einhvers konar stærra verndarsvæði eða áhrifasvæði. En hversu stórt er það svæði sem vísað er til í hverju tilviki, eins og t.d. í Vatnajökulsþjóðgarði, hversu stórt er það? Hvers langt nær áhrifasvæðið? Það eru jafnvel uppi hugmyndir um að friða nær allt vatnasvæðið kringum Hofsjökul og nánast austur að Vatnajökli. Ég velti fyrir mér hvort það sé svokallað „buffer zone“ eða áhrifasvæði. Síðan velti ég fyrir mér hvaða lagastoð þetta hugtak hefur, að setja það í nefndarálitið og leggja áherslu á það. Mér hefur ekki verið sýnt fram á það, ekki enn þá í það minnsta, það kann allt að koma og verða skýrt vonandi ef ráðherrar eða framsögumaður málsins koma hér og ræða við okkur.

Ég vek athygli á því, frú forseti, að það er engin dagsetning, það er ekkert sem rekur á eftir því að þetta mál sé klárað fyrir jól. Það er auðveldlega hægt að klára það í byrjun næsta árs að mínu viti. Þá gæfist hugsanlega tækifæri líka á að svara nokkrum af þeim spurningum sem hér hafa komið fram. En það er kannski bjartsýni að halda að það verði gert.

Ég held að við hljótum áfram að kalla eftir því að fá sterkari rök fyrir ákvörðun ráðherranna að færa kosti úr nýtingu í bið, kannski augljósustu kostina. Þar vil ég reyndar undanskilja Urriðafoss. Ég er sammála þeim sem vilja fara hægar í sakirnar þar og að það eigi að skoða þann kost sérstaklega og jafnvel að hætta algjörlega við hann. Ég get tekið undir það miðað við það sem ég hef getað lesið mér til um þann kost.

Ég ætla að leyfa mér líka að vara við áherslunni á jarðhitann þar sem þekking okkar og reynsla er takmarkaðri. Hún er vitanlega einhver og ég man eftir því í iðnaðarnefnd á sínum tíma þegar jarðfræðingar komu fyrir nefndina og allflestir töldu jarðhitann vera endurnýjanlega auðlind, ég man bara eftir einum sem taldi óráðlegt að líta þannig á, hann væri ekki endurnýjanleg auðlind. (Forseti hringir.) Afsakið, forseti, ég áttaði mig ekki á tímanum.