141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:06]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég var í rauninni að spyrja hvort hann hefði orðið var við þetta hugtak í málflutningi þeirra sem tala fyrir þessu máli og rökstuðningnum á þessu buffer zone og hvort það hefði dýpkað skilning hans vegna þess að ég hef ekki orðið vör við það að menn hafi reynt að útskýra þetta fyrir okkur eða svarað því hver munurinn sé á aðferðafræðinni sem verkefnisstjórn beitti og því sem menn boða að þurfi að gera.

Hér má taka dæmi: Torfajökulssvæðið var skilgreint sem eitt svæði og Kerlingarfjöll voru skilgreind sem eitt svæði. Í jarðhitanum voru matssvæðin dregin eftir útbreiðslu háhita samkvæmt viðnámsmælingum og oft einn til tvo kílómetra út fyrir það eftir því hvernig landslagið liggur. Þannig að þar var unnið með svæði. Síðan var auðvitað líka verið að skoða víðerni og verðmæti þeirra. Verðmætunum var skipt í fimm flokka. Það er svolítið flókið að fara yfir þetta en þetta er allt í skýrslunni frá verkefnisstjórninni og mjög fróðlegt að kíkja í hana í þessari umræðu. Ég er aðeins að skoða það sem faghópur I fjallaði um. Oftast voru fjögur til fimm viðmið notuð til að lýsa hverju viðfangi og síðan voru notuð tvo viðmið fyrir víðernin, flatarmál og fágætisgildi. Þá var það sem sagt stærðin sem skipti máli og síðan auðvitað hversu fágætt og sérstakt landslagið er. Þá er spurningin, sem við vorum að velta fyrir okkur í verkefnisstjórninni, hvort við eigum að tala um eitthvað sem er fágætt á Íslandi eða eitthvað sem er fágætt á heimsvísu vegna þess að það sem er algengt á Íslandi getur alveg talist fágætt á heimsvísu.