141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:34]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það grafalvarleg staða að forsvarsmenn Alþýðusambands Íslands segjast ekkert ætla að ræða neitt meira við þessa ríkisstjórn, m.a. um fjárfestingar. Við erum að ræða það hér og reyna að rökræða okkur niður á einhverja niðurstöðu í því af hverju er verið að færa sex rennslisvirkjanir úr nýtingarflokki yfir í biðflokk sem mun hafa í för með sér mun minni fjárfestingar en efni standa til. Mér finnst að við þurfum að ræða það hér vegna þess að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar svara Alþýðusambandinu fullum hálsi og segja í yfirlýsingu, með leyfi forseta:

„Formenn ríkisstjórnarflokkanna lýsa bæði undrun sinni og vonbrigðum með þær rakalausu fullyrðingar sem settar hafa verið fram í auglýsingu ASÍ …“

Áfram heldur, með leyfi forseta:

„Ósannar og ósæmilegar ásakanir eins og þær sem fram koma í auglýsingu ASÍ í dag eru ekki heppilegt innlegg í það mikilvæga starf.“

Það er alveg ljóst að kjarasamningar eru í uppnámi, það er ekkert traust á milli Alþýðusambandsins og ríkisstjórnarinnar, Samtaka atvinnulífsins og ríkisstjórnarinnar og þess vegna er ekki að undra að við reynum að hafa áhrif á framgang mála hér því að, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson bendir á, það vantar tilfinnanlega fjárfestingu í íslenskt samfélag. Það er kannski þess vegna sem tekjur ríkissjóðs eru svo lágar sem raun ber vitni og tekjur sveitarfélaganna líka. Svo kemur sama ríkisstjórn og talar um erfiða stöðu ríkissjóðs og leggur fram frumvarp gegn öllum helstu sérfræðingum landsins sem hafa farið yfir rammaáætlun á undangengnum 13 árum og leggur til niðurskurð á fjárfestingu í orkufrekum iðnaði á þriðja hundrað milljarða króna á fjögurra ára tímabili. Atvinnustefna þessarar ríkisstjórnar er óskiljanleg.