141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem hv. þingmaður las hér upp sýna það sem við vitum, að þessi ríkisstjórn kann ekki að skammast sín. Hvað eftir annað hefur komið fram og verið bent á það aftur og aftur að þessi ríkisstjórn svíkur gefna samninga, gefin loforð og svarar síðan fullum hálsi. Það er ekki að undra að allir gefist upp á samskiptum við þessa hv. stjórnmálamenn.

Virðulegi forseti. Við erum núna í þessari stöðu. Mér þætti miklu hreinna ef menn hefðu í stað þess að eyðileggja faglega plaggið og taka án rökstuðnings þessar virkjanir úr nýtingarflokki og setja í biðflokk bara sagt: Við viljum samt ekki fara í þetta — út af einhverju. Þó að virkjunarkostir séu komnir í nýtingarflokk er ekki byrjað að nýta þá. Það þarf að ákveða sérstaklega. Af hverju þarf að eyðileggja plaggið sem á að vera grunnur umræðunnar? Við erum alltaf að kalla eftir málefnalegri umræðu. Þess vegna var farið í þetta, kostaði milljarða, búin að vera að þessu í 13 ár, hér liggur það fyrir. Nei, nei, þá kemur stjórnmálamaður og segir: Ég ætla að gera þetta tortryggilegt þannig að ég tek þetta úr nýtingarflokknum, þetta uppfyllir að vísu öll skilyrði en ég ætla samt að gera það. Af hverju? Af hverju er ekki bara hægt að segja: Gott og vel, nú er flokkunin komin en ég vil samt ekki, ég sem stjórnmálamaður, nýta allt það sem er í nýtingarflokki. Þetta er fullkomlega óþolandi og það versta við þetta mál.

Virðulegi forseti. Síðan koma menn og henda nokkrum krónum í eitthvert grænt hagkerfi og meinta fjárfestingaráætlun sem enginn veit hvað er til þess að fá einhverja hv. þingmenn til fylgis við fjárlagafrumvarpið og þeir eru hérna kátir eins og litlir krakkar á jólunum. (Forseti hringir.) Eftir stendur að fjárfestingin er engin og meira að segja ASÍ er búið að gefast upp á ríkisstjórninni.