141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:38]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Þetta er búin að vera ágæt umræða. Við höfum ekki fengið svar við mörgum af þeim spurningum sem við höfum lagt hér fyrir. Ég hef fjallað um aðdraganda málsins í ræðum mínum og þá miklu vinnu sem okkar helstu vísindamenn hafa lagt í á undangengnum 13 árum við að móta rammaáætlun og hvernig ríkisstjórnin hefur á síðustu metrunum krukkað í þá merkilegu vinnu sem þverpólitískur stuðningur hefur verið við, vegferð sem var hafin á vakt framsóknarmanna og sjálfstæðismanna árið 1999 þegar fyrsta verkefnisstjórnin var sett á laggirnar.

Nú hefur verið blásið til ófriðar um þá mikilvægu stefnumótun sem þetta hefði verið ef við hefðum farið að ráðum okkar helstu vísindamanna. Málið er komið í fullkomið uppnám enda hefur það verið rauður þráður í umræðunni hjá þeim fulltrúum stjórnmálaflokka sem eiga ekki aðild að ríkisstjórninni að þessi þingsályktunartillaga muni rétt lifa fram yfir næstu kosningar og þá verði plaggið tekið til heildarendurskoðunar þannig að okkur hefur mistekist, þ.e. ríkisstjórninni hefur mistekist, að ná sátt eins og framsóknarmenn hafa talað fyrir í á annan áratug um það hvernig við viljum nýta og virkja náttúruauðlindir okkar og vernda til lengri tíma litið. Sú sátt er fyrir bí og við höfum komið ítrekað hingað upp og boðið sáttarhönd um hvernig þessum málum verði best háttað.

Fram kom um miðjan dag í dag að Alþýðusamband Íslands hefur sagt sig frá öllum samskiptum við ríkisstjórnina. Ég nefndi það hér í andsvari áðan að formaður Alþýðusambands Íslands hafði sagt í kjölfar fundar formanna aðildarfélaga Alþýðusambandsins í dag að fundarmenn hefðu verið mjög samstiga á þeim fundi. Ég ætla að endurtaka það því að mér finnst mikilvægt að þetta komist í þingtíðindi. Forseti Alþýðusambands Íslands segir, með leyfi forseta:

„Það var niðurstaða okkar á fundinum í dag að við ættum ekkert vantalað við þessa ríkisstjórn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Við munum við endurskoðun samninganna ekki freista þess að ræða við ríkisstjórnina. Við metum það enda svo að það þjóni engum tilgangi. Við erum búnir að reyna það til þrautar. Tími ríkisstjórnarinnar kom og fór.

Við teljum í reynd að þessi samningur sé ónýtur.“

Áfram heldur, með leyfi forseta:

„Umræða um fyrirkomulag efnahagsmála í framtíðinni, gengi, fjárfestingar og efnahagsstefnu verður að bíða nýrrar ríkisstjórnar. Það verður ekki frekar rætt við þessa ríkisstjórn.“

Það þarf ekki frekar vitnanna við. Ríkisstjórnin er einfaldlega rúin trausti aðila vinnumarkaðarins og reyndar fleiri í samfélaginu.

Við ræðum akkúrat efnahagsleg áhrif þess að samþykkja þessa þingsályktunartillögu þar sem Vinstri grænir hafa náð að knýja það í gegn að fjárfesting verði 270 milljörðum kr. lægri á næstu fjórum árum en ella hefði getað orðið samkvæmt ráðgjafarfyrirtækinu Gamma sem hefur lagt mat á hvað það þýði í þjóðhagslegu tilliti að færa sex rennslisvirkjanir úr nýtingarflokki, sem okkar helstu vísindamenn hafa lagt til eftir mjög ítarlega vinnu um 13 ára skeið, yfir í biðflokk. Hvað mun þetta þýða? Þetta mun þýða að tekjur ríkissjóðs verða umtalsvert lægri fyrir vikið, tekjur sveitarfélaganna líka og nú er ljóst að vegna þessara áforma Vinstri grænna eru kjarasamningar komnir í algjört uppnám. Það er mér til efs að nokkur ríkisstjórn hafi afrekað með eins skýrum hætti að setja efnahagsmál í eins mikla óvissu og þessi ríkisstjórn hefur gert, þvert á það sem vísindamenn hafa lagt til, þvert á ráðleggingar aðila vinnumarkaðarins. Ríkisstjórnin setur einfaldlega undir sig hausinn og ætlar að keyra þetta mál í gegn. (Gripið fram í.) Það bjarta er …

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður þingmenn í hliðarsölum að hafa hljótt svo að ræðumenn hafi tíma og frið til þess að flytja mál sitt.)

Ég á tvær setningar eftir, virðulegi forseti. Það bjarta er að stuttur tími er til kosninga og allar líkur eru á því að ný ríkisstjórn verði kjörin að þeim loknum og þá eru vonandi bjartari tímar fram undan.