141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þetta eru athyglisverðar staðreyndir sem þingmaðurinn bendir á varðandi afstöðu ASÍ til ríkisstjórnarinnar og þeirra framkvæmda sem liggja í loftinu eða liggja ekki í loftinu. Auðvitað er rétt að þetta mál sem við ræðum hefur mikil áhrif á það hvert framkvæmdastigið verður og hvenær málin komast af stað. Þegar rammaáætlun er komin í gegn vitum við hvar við stöndum. Það var meginhugsunin með þessu öllu saman, að það lægi svolítið ljóst fyrir hvert væri verið að fara.

Hvaða leið sér hv. þingmaður út úr þessu núna? Hvað telur hv. þingmaður að hægt sé að gera? Nú hafa framsóknarmenn lagt til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar, þeirrar hinnar sömu ríkisstjórnar og hv. þingmaður fjallaði um í ræðu sinni að ASÍ telur sig ekki eiga neitt vantalað við. Þá spyr ég framsóknarmanninn, hv. þm. Birki Jón Jónsson: Hvernig sér hann fyrir sér að ríkisstjórnin taki málið aftur til sín og vinni úr því mál sem þjónar hinum upphaflegu markmiðum með gerð rammaáætlunar?