141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:45]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Nú er stórt spurt. Það er ljóst að miðað við þessar yfirlýsingar Alþýðusambandsins og þann eindregna stuðning sem formenn aðildarfélaga hafa lýst yfir við málflutning forseta Alþýðusambandsins um ríkisstjórnina hafa þeir í raun sagt sig frá öllum samskiptum við ríkisstjórnina. Þá er kannski úr vöndu að ráða. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að kannski væri besta lausnin að gera hlé á þessari umræðu, setjast niður, þvert á flokka og gera það sem okkar fremstu vísindamenn hafa ráðlagt okkur, þ.e. að láta þær sex rennslisvirkjanir sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur tekið úr nýtingarflokki og sett í biðflokk halda sínum stað eins og okkur hefur verið ráðlagt að gera af helstu sérfræðingum okkar.

Tónninn í þeim skilaboðum sem forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar senda Alþýðusambandinu eftir fundinn sem þeir héldu í dag er reyndar ekki til þess að auka bjartsýnina. Meðal annars segir, með leyfi herra forseta, í yfirlýsingu forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar:

„Ósannar og ósæmilegar ásakanir eins og þær sem fram koma í auglýsingu ASÍ í dag eru ekki heppilegt innlegg í það mikilvæga starf.“

Þar er væntanlega verið að tala um það mikla kraftaverk sem ríkisstjórnin segist vera að gera á hverjum degi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Hún er nú reyndar sú eina sem heldur því fram. Það er orðið ljóst að ríkisstjórnin er rúin öllu trausti. Ég tel að ef við viljum ná auknum umsvifum og aukinni fjárfestingu í íslenskt atvinnulíf og þannig hækka laun fólksins í landinu þurfi að gera hlé á þessari umræðu. Við verðum að breyta ákvörðun Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að setja þessar sex virkjanir í biðflokk, við þurfum að setja þær aftur í nýtingarflokk þannig að fjárfesting aukist á ný í íslensku samfélagi.