141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi fá skýr svör frá hv. þingmanni af því að ég taldi eftir ræðu hans að hann væri að boða að framsóknarmenn ætluðu að draga til baka tillögu sína um að vísa málinu til ríkisstjórnar í ljósi stöðunnar sem upp er komin varðandi ASÍ og afstöðu sambandsins til ríkisstjórnarinnar. Ég heyri nú að svo sé ekki, þó að hv. þingmaður taki undir sjónarmið mín um að ekkert annað sé að gera en að fresta málinu. Það séu engin tök á að klára það eða senda í atkvæðagreiðslu í þinginu meðan það er í þeirri stöðu sem það er í dag. Það nær ekki þeim markmiðum sem upphaflega voru sett fram með gerð rammaáætlunar um að skapa sátt á milli ólíkra sjónarmiða um náttúruvernd og nýtingu.

Mig langar að taka undir með hv. þingmanni um þau tækifæri sem við eigum. Við Íslendingar eigum miklar náttúruauðlindir. Við erum mjög rík þjóð að því leyti, hvort sem við erum að tala um vatnið, fiskinn í sjónum eða hinar miklu auðlindir sem við eigum í jarðhitanum og vatnsaflinu. Við eigum að fara vel með þær, en við eigum líka að viðurkenna að við erum þjóð sem lifir af landinu og við þurfum þess vegna að reyna að koma okkur saman um þetta stóra mál svo að hægt sé að halda áfram og allir viti að hverju þeir ganga. Þess vegna vil ég enn og aftur brýna hv. þingmann í því að við stöndum saman. Við eigum að hefja þetta mál upp yfir pólitíkina, sleppa því að setja á það pólitísk fingraför og halda okkur við þá stefnu sem mörkuð var þegar verkefnið var sett af stað, að fylgja eftir hinni faglegu vinnu og láta þá niðurstöðu berast í gegnum þingsalina allt til enda, þangað til rammaáætlun verður samþykkt.