141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:50]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil enn og aftur taka undir með hv. þingmanni þar sem hún boðar með sáttatóni lausn á þessum málum, einfaldlega að fara faglega að málinu og fara eftir ráðleggingum okkar færustu sérfræðinga. Þetta á ekki að vera neitt voðalega flókið, en mér finnast þessi nýju tíðindi, skeytasendingar ríkisstjórnarinnar til Alþýðusambands Íslands og yfirlýsingar Alþýðusambandsins um að það hafi sagt sig frá öllum samskiptum við ríkisstjórnina, það alvarleg, á sama tíma og við ræðum um stórkostlegan niðurskurð á fjárfestingum í íslensku efnahagslífi, að þau kalli á að umræðunni verði frestað. Hér eru undir gríðarlegir hagsmunir og ég tel að við þurfum í hreinskilni að ræða stöðu ríkisstjórnarinnar, hvort hún hafi traust og afl til þess að koma mikilvægum framkvæmdum áleiðis, og hvernig við getum tekist á við atvinnuleysið og landflóttann sem hefur einkennt íslenskt samfélag á undangengnum árum.

Það er ljóst að ríkisstjórnin er rúin trausti. Aðilar vinnumarkaðarins og þeir sem eru í minni hluta á þingi treysta henni ekki og reyndar er það svo að samkvæmt öllum skoðanakönnunum treystir almenningur ekki heldur ríkisstjórninni. Við verðum að reyna að lágmarka skaðann og ég fer fram á það í fullri einlægni að þessari umræðu verði frestað og að við endurskoðum þau áform sem munu leiða af sér að fjárfesting verður ekki eins mikil og gæti orðið. Það er mjög mikilvægt. Ég held að það sé einsdæmi á síðari tímum að aðilar vinnumarkaðarins hafi með jafnafdráttarlausum hætti sagt sig frá öllum samskiptum við ríkjandi stjórnvöld.