141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Í upphafi ræðu minnar vil ég vekja athygli á því sem kemur fram í heilsíðuauglýsingu Alþýðusambands Íslands í dag þar sem enn eina ferðina er talað um vanefndir og svikabrigsl hæstv. ríkisstjórnar. Í auglýsingunni segir eins og alþjóð er kannski kunnugt að orð skuli standa. Þar eru tilgreind nokkur atriði sem ASÍ telur að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við. (Gripið fram í.) Þar á meðal er nefnt: „Rammaáætlun afgreidd í samræmi við tillögu sérfræðinganefndar — ekki efnt.“ Þetta er akkúrat það sem stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir og það eru alltaf sömu svörin hjá ríkisstjórninni, alveg sama hver bendir á það, þegar ríkisstjórnin svíkur gefið samkomulag, þá kannast hæstv. ríkisstjórn ekkert við það eða forustumenn hennar. Það er svo sem ekkert nýtt. (Gripið fram í.)

Það veldur miklum vonbrigðum að ekkert skyldi vera gert með það frumvarp sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði fram um að færa málið aftur til verkefnisstjórnarinnar og láta raða þeim kostum sem um ræðir í þrjá flokka sem snúa að nýtingu, verndun og bið. Það segir okkur að þessi rammaáætlun er bara áætlun núverandi hæstv. ríkisstjórnar.

Af hverju skyldi ASÍ gagnrýna þetta mál? Það er vegna þess að það mun hafa áhrif á lífskjör fólks í landinu og þar á meðal umbjóðenda þessara samtaka. Það vita það allir sem vilja vita.

Það sem er líka merkilegt og væri áhugavert ef hæstv. umhverfisráðherra gæti svarað því í andsvörum sem ég ætla að vekja athygli á. Það er ósamræmið hjá hæstv. ráðherrum, hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra á þeim tíma, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur. Það væri auðvitað mjög athyglisvert að fá svör við því hér í umræðunni hvers vegna þessi niðurröðun er lögð fram, annars vegar það sem snýr að vatnsaflsvirkjunum þar sem búið er að taka sex kosti og endurraða í biðflokk og hins vegar þau rök sem koma fram í nefndaráliti meiri hlutans og liggja til grundvallar þessum ákvörðunum, þ.e. rökstuðningurinn fyrir því að fara í virkjanir á háhitasvæðum þegar mun sterkari athugasemdir snúa að hinum þáttunum. Það fást engin svör við því. Tilgangurinn er kannski sá að setja allt í bið. Það kemur mjög skýrt fram í umsögnum eins og til að mynda hjá Orkustofnun. Ég vitna í umsögnina, með leyfi forseta:

„Það er mat Orkustofnunar að með þessu verði markmiðum um sjálfbæra uppbyggingu raforkuframleiðslunnar stefnt í hættu. Þrýstingur á hraðari nýtingu jarðvarma eykst, það tæknilega og efnahagslega öryggi og þar með sú hagkvæmni sem fæst með því að virkja samhliða jarðhita og vatnsafl verður ekki fyrir hendi. Orka í sífelldri endurnýjun sem ekki er beisluð í vatnsföllum er glötuð meðan orku í jarðvarmalindum má að einhverju marki líta á sem forða sem bíður nýtingar.“

Þetta eru auðvitað spurningar sem hæstv. ráðherrar verða að svara: Hvers vegna er flokkunin eins og lagt er til í þeirri þingsályktunartillögu sem við erum að ræða? Hver er ástæðan? Er hún sú að það á að stoppa allt?

Það kemur líka mjög skýrt fram í umsögn Landsvirkjunar að verið er að taka hagkvæmustu virkjunarkostina út, sem eru mest rannsakaðir og mest er vitað um hvaða áhrif hafa á umhverfið. Það eru engin svör.

Svo er mjög athyglisvert að fara yfir þingsályktunartillöguna og síðan nefndarálit meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Þegar færður er rökstuðningur fyrir því að færa sex vatnsaflsvirkjanir er talið nauðsynlegt að kanna einstök áhrif þessara virkjunarkosta, varúðarsjónarmið búi þar að baki. Jú, það er í fínu lagi. En þegar maður les síðan varnaðarorð í áliti meiri hlutans sem snúa einmitt að virkjunum á háhitasvæðum þá er það nokkuð athyglisvert. Ég ætla að fá að vitna orðrétt í álit meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem telur að gæta þurfi varúðarsjónarmiða með vatnsaflsvirkjanirnar út af laxastofninum, sem ég gef reyndar ekki mikið fyrir nema hugsanlega á Urriðafosssvæðinu en það er ekki svo mikil hætta með tvær efri virkjanirnar þótt hún sé kannski örlítil, en varúðarsjónarmið gilda ekki þegar meiri hlutinn hefur jarðvarmavirkjanirnar á háhitasvæðunum áfram í nýtingarflokki. Hvað skyldi standa hjá meiri hlutanum? Ég ætla að lesa það beint, með leyfi forseta:

„Efasemdir og áleitnar spurningar hafa vaknað um sjálfbærni orkuvinnslunnar, um mengun grunnvatns af völdum skiljuvökva eða affallsvatns, um mengun lofts af völdum brennisteinsvetnis og um jarðskjálftavirkni vegna niðurdælingar.

Þá ber að hafa í huga að samkvæmt eðli máls felast veruleg umhverfisspjöll í hverri einustu virkjunarframkvæmd á háhitasvæði. Slíkt rask á sér einnig stað við rannsóknarboranir og því þarf að fara fram af sérstakri varúð.“

Hvort vegur þyngra, það sem hér er sagt, mengun grunnvatns og hugsanleg jarðskjálftavirkni, eða áhrif á laxastofn sem þegar hafa verið boðaðar mjög miklar mótvægisaðgerðir til að bregðast við af hálfu Landsvirkjunar? Þetta er mjög athyglisvert í ljósi þess að meiri hlutinn og hæstv. umhverfisráðherra leggja til að þrátt fyrir að það geti mengað grunnvatn, sem er neysluvatn, og valdið jarðskjálftum — við þekkjum umræðuna og það sem hefur gerst í kringum Hellisheiðarvirkjun — verði virkjanir á háhitasvæðum í nýtingarflokki. Hvor rökin eru sterkari? Að mínu viti er enginn vafi þar um. Þetta er í raun algerlega óskiljanlegt. Ég hef ekki fengið svör við þessu. Það væri mjög athyglisvert ef hæstv. umhverfisráðherra kæmi hingað og útskýrði hvers vegna jarðvarmavirkjanir eru í nýtingarflokki en ekki vatnsaflsvirkjanirnar. Er það bara til að setja allt í stórt stopp? Það getur vel verið, en það er mjög merkilegt þegar maður les röksemdafærslu og ástæður fyrir þessu hjá meiri hlutanum í hv. umhverfis- og samgöngunefnd því að það er engin samfella í því.

Síðan er mikilvægt að átta sig á einu þegar þetta er gert, sem kemur mjög skýrt fram þegar ég spyr: Hvað eru áhyggjur af mengun grunnvatns eða því að boranir á háhitasvæði valdi hugsanlega jarðskjálftum til samanburðar við þær mótvægisaðgerðir sem boðaðar eru til að mynda í þeim virkjunum sem snúa að neðri hluta Þjórsár? Það segir sig sjálft. Mjög ítarleg greinargerð og skýrsla sem fylgdi umsögninni frá Landsvirkjun segja til um hvernig eigi að bregðast við. Það merkilegasta við þetta allt saman er að þarna er verið að veiða nánast 98% í net — þó að ég sé ekki að gera lítið úr laxveiðinni eða hlunnindunum sem að henni snúa. Ég sat fund sem varamaður í hv. atvinnuveganefnd þegar málið var þar, sem hugnaðist ekki hæstv. ríkisstjórn þannig að það var fært á milli nefnda, með fullri virðingu fyrir umhverfis- og samgöngunefnd og því fólki sem þar situr. Ég hlustaði einmitt á þessa aðila þegar þeir komu á fund hv. atvinnuveganefndar, bæði þá sem töluðu fyrir því að fara varlega út af laxastofninum og þá sem komu frá Veiðimálastofnun og útskýrðu hvernig yrði brugðist við. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér fannst röksemdafærsla frá fulltrúum Veiðimálastofnunar mun sterkari en þeirra sem ætla veiða áfram lax í net.