141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt mjög athyglisvert að lesa skýringarnar sem fylgja þessu máli, og ég fór meðal annars yfir í ræðu minni áðan, og ástæður meiri hlutans, ekki minni hlutans eða stjórnarandstöðunnar heldur meiri hlutans, að menn hafi áhyggjur af laxastofninum í Þjórsá vegna virkjana þar, sérstaklega neðstu, auðvitað miklu minna í tveimur efri, og þess vegna skuli gæta sérstakrar varúðar. Það verður líka að athuga að þær mótvægisaðgerðir sem Landsvirkjun hyggst grípa til við þessar virkjanir eru mjög miklar. Það er talið af Veiðimálastofnun, þaðan sem helstu sérfræðingar okkar í þessum málum koma, að virkjanir þarna muni hafa óveruleg áhrif. Síðan les maður álitið frá meiri hlutanum þar sem segir að við virkjun á háhitasvæðum skapist hætta á brennisteinsmengun út í andrúmsloftið og það allt saman, virkjun muni menga grunnvatnið og jafnvel valda jarðskjálftum en þeir virkjunarkostir eru samt áfram í nýtingarflokki. Þess vegna kallaði ég eftir útskýringum í dag þegar hæstv. umhverfisráðherra sat og hlustaði á ræðuna mína en ég fékk engin svör. Það er auðvitað hrópandi ósamræmi í þessu.

Síðan er líka bent á — þess vegna er maður að leiða hugann að því — og kemur til að mynda fram í umsögn frá Orkustofnun, að þessar virkjanir séu ekki sjálfbærar. Það er miklu meiri óvissa sem snýr að virkjunum á háhitasvæðum en vatnsafli. Þær virkjanir sem eru teknar þarna út og settar í biðflokk eru mest rannsakaðar, mest er vitað um þær, rannsóknir þar eru lengst komnar. Það er því mjög skrýtið að lesa rökin hjá hv. þingmönnum sem leggja þessa tillögu fram um nýtingu á háhitasvæðunum og aftur á móti rökin vegna varúðarsjónarmiða á vatnsaflssvæðunum.