141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, það er búið að kalla töluvert eftir rökum fyrir því að þessi breyting hafi verið gerð. Sá rökstuðningur hefur ekki komið fram, þó er margbúið að kalla eftir honum.

Við hljótum líka að velta þessu fyrir okkur þegar við lesum nefndarálit meiri hlutans. Þar er áherslan á jarðhitavirkjanir í nýtingarflokki og ekki settur neinn fyrirvari við þær, varúðarsjónarmiðið virðist ekki gilda þar, en samt sem áður er að finna upptalningu í textanum, merkt stafliðum, þar sem kemur fram að hitt og þetta þurfi að skoða, kanna, rannsaka, velta fyrir sér o.s.frv. Það er í sjálfu sér ekki gert vegna varúðarsjónarmiða heldur vegna þess að menn telja að það vanti rannsóknir og slíkt. Hefði ekki verið nær að fjalla skýrar um kostina sjálfa?

Annað sem hefur vakið athygli er að verkefnisstjórnin setti sér nokkurs konar ramma þegar hún fór af stað til að vinna eftir. Þegar verkefnisstjórnin fjallaði um áhrifasvæði virkjana var til dæmis horft á vatnasvið eða jarðhitageyminn þar sem jarðhitavirkjanir eru fyrir hendi. Síðan sjáum við það í nefndarálitinu að talað er um verndarsvæði og þau kölluð „buffer zone“ á enskri tungu en það er engin skýring á því. Það er engin skýring gefin af hverju meiri hlutinn vill stækka að því er virðist það svæði sem er í dag talið áhrifasvæði og verkefnisstjórnin gaf sér. Hvað liggur þar að baki? Hvaða forsendur hefur meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar til að ætla að stærra svæði verði sett þarna undir?