141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem sumir óttuðust er að gerast í þessu máli. Þegar farið var í þetta ferli fyrir öllum þessum árum, um 14 árum síðan, ætluðu menn að leiða þetta mál í jörð, eins og sagt er. Það kemur líka fram í umsögn Orkustofnunar hvernig menn fóru að málinu.

Þessi pólitísku fingraför eru algerlega óþolandi og ólíðandi. Það sem er verst við þetta að mínu mati er að þetta er bara rammaáætlun núverandi ríkisstjórnar. Það gefur auga leið. Auðvitað munu stjórnvöld sem taka við ekki vera bundin af þessu vegna þess að samkomulagið var brotið með því að fara með málið í þennan farveg. Það hefði auðvitað verið skynsamlegra fyrir allt og alla ef menn hefðu látið verkefnisstjórnina raða kostunum upp á nýtt og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er búinn að leggja fram frumvarp þess efnis að málinu verði bara vísað aftur til verkefnisstjórnarinnar og hún látin raða þessum kostum eftir eigin höfði, enda búin að vinna við þetta í öll þessi ár, og síðan mundu menn hlíta því og það yrði þá grunnurinn á því samkomulagi. Auðvitað er það ekki hægt, það má ekki.

Hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn tala um fagleg vinnubrögð. Það er náttúrlega lýðskrum og vitleysa og ekkert annað. Það hefur tekist að eyðileggja þetta mál eins og nánast öll önnur. Það er því miður þannig. Það er mjög slæmt að mínu viti að búið sé að eyðileggja þetta ferli. Það er alveg sama hvað hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn kemur nálægt, það er alveg sama hvað það er, það er allt í þessa veru. Síðan þegar bent er á svikin og allt sem er búið að lofa og að ríkisstjórnin hafi gengið á bak orða sinna þá kannast hæstv. ríkisstjórn aldrei við nokkurn skapaðan hlut. Það er alveg sama hver á í hlut, Samtök atvinnulífsins, ASÍ, eins og sést í auglýsingunni í dag, ríkisstjórnin hefur aldrei svikið neitt. Vinnubrögðin eru bara með þessum hætti.