141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þetta var mjög athyglisvert viðtal sem hv. þingmaður var að vitna til og það hefur verið vitnað í þetta sama viðtal og sagt frá því á netmiðlum. Síðan voru þeir í Kastljósi í sjónvarpinu, skilst mér, atvinnuvegaráðherra ásamt forseta ASÍ. En þetta er nákvæmlega það sem margir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa varað við í umræðum um rammaáætlun. Þetta stopp eða hvað á eiginlega að kalla það, öll þessi frestun mun leiða til þess að efnahagsbatanum seinkar.

Nú kemur forseti ASÍ fram og segir að hér vanti að hleypa málunum á skeið, ef má orða það þannig, og það muni leiða til veikingar krónunnar. Það leiðir til þess að hagur heimilanna á Íslandi versnar. Þetta eru skilaboðin sem forseti Alþýðusambandsins er að senda, hann varar okkur við, en þó er það þannig að ekki á að hlusta á hann frekar en á okkur þingmenn stjórnarandstöðunnar. Við höfum ekki fengið áheyrn meiri hlutans með athugasemdir okkar. Á virkilega að keyra þetta mál áfram samt sem áður? Á að klára það þó svo að nú séu aðilar vinnumarkaðarins farnir að vara við þeim hörmungum sem gætu fylgt í kjölfarið?

Það kann að vera að stjórnarflokkarnir hugsi þetta nákvæmlega þannig, að þetta skipti engu máli. Veltum þessu bara yfir á framtíðina, veltum þessu yfir á næsta þing, látum næstu ríkisstjórn taka við vandanum sem við erum að skapa hér. Það er augljóst að þessu mun fylgja mikill vandi ef mark er tekið á orðum forseta ASÍ og þeim varnaðarorðum sem við þingmenn höfum margir haft uppi. Því spyr ég hv. þingmann hvort ekki sé nauðsynlegt að herða róðurinn í þessari umræðu til að reyna að fá stjórnarflokkana til að opna augun.