141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:02]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og forseti Alþýðusambands Íslands vakti athygli á í útvarpsviðtali fyrr í dag standa heildarsamtök íslenskra launþega, 100 þús. manns, á bak við þessa auglýsingu. Það sem við þurfum að átta okkur á er heildarsamhengið sem forseti Alþýðusambands Íslands og Alþýðusambandið undirstrika. Bent er á það sem kemur til dæmis fram í umsögn Orkustofnunar að með því að færa þessa virkjunarkosti úr nýtingarflokki í biðflokk eins og ríkisstjórnin lagði til er verið að taka hagkvæmustu og best rannsökuðu virkjunarkostina úr nýtingarflokki, setja þá í biðflokk, setja þá í óvissu. Síðan bætir meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar gráu ofan á svart og ákveður að setja þannig skorður við allt sem snertir jarðhitaverkefnin að greinilegt er að þar er ekki tíðinda að vænta á næstu árum ef fram heldur sem horfir. Það er heildarsamhengið sem verkalýðshreyfingin er að vekja athygli á, það er í raun verið að koma í veg fyrir allar framkvæmdir á þessu sviði.

Þó er öllum ljóst að fljótlegasta aðferðin til að drífa af stað alvöruhagvöxt felst í að koma þessum verkefnum af stað. Nú geri ég ekki lítið úr annarri atvinnusköpun í landinu sem skiptir miklu máli. En við vitum líka að ríkisstjórnin hefur verið dugleg við að bregða fæti fyrir hana. Þessi verkefni eru af því taginu að þau eru fullrannsökuð og búið hefur verið svo um hnútana að hægt er að fara í framkvæmdir á mjög skömmum tíma. En þessi ákvörðun þýðir að komið er í veg fyrir að hægt sé að hleypa þeim af stað og þannig er stöðvuð sú uppbygging sem þeim mundi fylgja. Það er þetta heildarsamhengi sem verkalýðshreyfingin, orðin svo langþreytt á svikum (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar, bendir á.