141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og (Gripið fram í.) djúpa. Mig langar að vekja athygli hv. þingmanns á því að 19. nóvember 2012 skilaði hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson af sér áliti 2. minni hluta atvinnuveganefndar um þessa þingsályktunartillögu. Í lokaorðum þess álits segir, með leyfi forseta:

„Önnur afleiðing verður áframhaldandi stöðnun atvinnulífs með tilheyrandi atvinnuleysi ekki síst í jarðverktaka- og byggingargeira. Sú stöðnun er á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna.“

Þetta er í sjálfu sér nákvæmlega það sama og forseti Alþýðusambands Íslands er að vara við akkúrat í dag og hefur afrekað það að reita hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra til mikillar reiði, eins og sjá mátti áðan í sjónvarpinu. Það er í sjálfu sér ekki nýtt að við þessu sé varað. Það má kannski segja að það sé með ólíkindum hversu mikið langlundargeð Alþýðusambandið hefur haft að fara ekki fyrr fram með jafnákveðnum hætti og það hefur nú gert, en það er mjög gott að Alþýðusambandið skuli gera þetta og vekja athygli á þessu. Það hafa fleiri gert og þetta undirstrikar þá að sjálfsögðu alvarleika málsins. Þetta eru ekki bara einhverjir hundleiðinlegir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem eru að kvelja ríkisstjórnina, þetta er grafalvarlegt mál. Það er verið að fjalla um þetta hér af jafnmikilli alvöru og Alþýðusamband Íslands gerir. Við hljótum því að spyrja og ég spyr hv. þingmann hvort ekki sé full ástæða til að setjast núna niður, fara betur yfir þetta og velta fyrir sér hvort virkilega sé hægt að ganga frá þessu með öllum þeim fyrirvörum sem menn hafa sett.