141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:12]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek algjörlega undir þessi lokaorð greinargerðarinnar hjá hv. þingmanni og bendi á að Framsóknarflokkurinn hefur nú þegar lagt til að málinu verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar þar sem það verði endurskoðað. Það er gott mál. Við höfum lagt fram tillögu í þinginu til formlegrar meðferðar um að í stað þessa pólitíska flokkunarlista virðulegs umhverfisráðherra og hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, Oddnýjar Harðardóttur, eigi að vinna sérfræðingaálitið áfram þannig að hægt verði að ná sátt um hlutina. Allir skynsamir menn hljóta að sjá að það gengur ekki að þjóðfélagið sé komið á annan endann, að þjóðfélagið rísi upp gegn ríkisstjórninni vegna þess hvernig hún vinnur hlutina, að verkalýðshreyfingin skuli kaupa auglýsingar til að benda á þessa augljósu hluti, að hæstv. atvinnuvegaráðherra skuli standa í hávaðarifrildi í fjölmiðlum. (Gripið fram í.) Þetta gengur ekki lengur. Það sjá allir skynsamir og sanngjarnir menn að það verður einhvern veginn að reyna að leiða þetta mál í jörð og reyna að sætta það.