141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:18]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Mér var hálfbrugðið áðan að fylgjast með Kastljóssþættinum og sjá hvers lags djúpstætt vantraust virðist vera orðið á milli verkalýðshreyfingarinnar annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar. Mér fannst hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson fara ágætlega yfir það í ræðu sinni hve grafalvarlegt ástandið er orðið.

Nú erum við að ræða um einn hluta þess sem hefur valdið þessu vantrausti og mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða leiðir hann sjái út úr þeirri krísu sem ríkisstjórnin virðist núna vera í og heldur í raun og veru íslensku samfélagi í um leið. Verkalýðshreyfingin hefur gefið það út að hún ætli sér ekki að eiga meiri samskipti við þessa ríkisstjórn á þessu kjörtímabili, heldur verður það verkefni verkalýðshreyfingarinnar að ræða við nýja ríkisstjórn eftir næstu kosningar um framfaramál.

Við erum að ræða mál þar sem Vinstri grænir vilja stórlega skera niður framkvæmdir tengdar orkufrekum iðnaði með því að færa sex vatnsaflsvirkjanir úr nýtingarflokki yfir í biðflokk. Þetta hefur valdið mörgum mönnum vonbrigðum, mér þar á meðal. Við erum ekki ein sem ræðum þetta í stjórnarandstöðunni, heldur er það verkalýðshreyfingin líka.

Hv. þingmaður endaði ræðuna sína áðan á að tala um brotin loforð og þá datt mér í hug tilvitnun í frægan texta eftir Bubba Morthens. Hann hljóðar svo, með leyfi herra forseta:

Brotin loforð alls staðar,

brotin hjörtu á dimmum bar,

brotnar sálir biðja um far

burt, burt, heim.

Fá orð eiga eins vel við á þessu kvöldi sem skilaboð til þessarar ríkisstjórnar.