141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:24]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningu hv. þingmanns vil ég svara á þennan hátt: Ég veit ekki til þess að þetta hafi gerst áður. Ég þekki það ekki. Það er ákaflega merkilegt ef maður skoðar þetta í sögulegu samhengi að þetta skuli gerast núna hjá þessum tveimur flokkum, að þeir missi svona algjörlega tengslin við ræturnar. Þessir flokkar eiga rætur í verkalýðshreyfingunni en hún hefur núna algjörlega yfirgefið ríkisstjórnina. (BJJ: Þeir áttu sínar rætur.) Eins og hv. þingmaður bendir á er rétt að tala núna um að þeir hafi átt sínar rætur í verkalýðshreyfingunni, en það er greinilega liðin tíð. Þegar við sjáum fyrirsagnir eins og núna á ríkisfjölmiðlinum um að þetta sé lygi og annað slíkt undrar mann að þetta skuli vera samskiptin milli foringja annars stjórnarflokksins og þess sem segir að hann ráði þessu öllu saman raunverulega einn og geri þetta allt saman. Manni ofbýður að svo skuli vera komið að menn geti ekki einu sinni talað saman lengur. Það er grafalvarlegt mál og afleiðingarnar af því eiga eftir að koma í ljós hér á næstu dögum, vikum og mánuðum. En það er alltaf ljós einhvers staðar og ljósið er í apríl, þá geta landsmenn sagt sína (Forseti hringir.) meiningu.