141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:40]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við áfram rammaáætlun. Ég tók þessa auglýsingu frá Alþýðusambandi Íslands með mér í ræðupúltið því að meira að segja verkalýðurinn er búinn að gefast upp á ríkisstjórninni. Ég sagði það í ræðu í síðustu viku að þingmenn væru búnir að gefast upp á ríkisstjórninni og landsmenn væru að gefast upp á henni, en nú er það komið í auglýsingaformi að Alþýðusamband Íslands er einnig búið að gefast upp á ríkisstjórninni.

Hér eru lagðir fram átta punktar sem ASÍ bendir á að ríkisstjórnin hafi ekki efnt. Við gerð kjarasamninga árið 2011 gaf ríkisstjórnin ASÍ loforð um mikilvægar aðgerðir á vinnumarkaði sem átti að ganga í til að draga úr atvinnuleysi. Að sjálfsögðu stendur ríkisstjórnin ekki við þetta loforð frekar en önnur. Ríkisstjórnin er meira að segja farin að brjóta skriflega samninga. Við vitum alveg hvað það þýðir fyrir dómstólum sem dæmi þegar samningar eru ekki virtir.

Það sem mig langar helst til að ræða í þessum punktum frá ASÍ er það efni sem er til umræðu núna, að rammaáætlun skuli vera afgreidd í samræmi við tillögu sérfræðinganefndarinnar. Hér stendur „ekki efnt“ feitletrað í þessari auglýsingu. Því spyr ég: Hvers vegna í ósköpunum gat ríkisstjórnin ekki komið þessu máli frá sér, skrifað undir samninga við Samtök atvinnulífsins og ASÍ 2011? Það er ekki efnt. Síðasti punkturinn frá ASÍ varðar róttækar aðgerðir í atvinnumálum og að ráðist verði í auknar fjárfestingar. Það er ekki efnt.

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon hefur meira að segja farið fram með þann dónaskap í dag í fjölmiðlum að brigsla forustumönnum Alþýðusambands Íslands um lygar. Þetta eru stór orð frá ráðherra sem fer fyrir öðrum flokki ríkisstjórnarinnar.

Umræðan í fjölmiðlum í dag hefur gengið út á að þetta með rammaáætlunina hafi verið svikið, að ekki sé farið eftir því plaggi sem var skilað til ríkisstjórnarinnar sem var svo skotið undir með lögformlegum hætti með lögum 2011, að Alþingi skuli taka valdið af ríkisstjórninni. Þetta hef ég oft heyrt síðan ég settist á þing, fólk segir við mig persónulega: Farið nú að reyna að fella þessa ríkisstjórn og koma henni frá völdum, þið eruð þingmenn og þið berið ábyrgð á því að þessi ríkisstjórn situr.

Það kristallaðist líka í umræðunni í dag að Alþingi geti tekið völdin af ríkisstjórninni. Það er ekki hægt, virðulegi forseti, á meðan ríkisstjórnin virðist lafa á naumum meiri hluta og það eru enn þá einhverjir fylgismenn við þessa ríkisstjórn af þeim 63 þingmönnum sem sitja í þessum sal og starfa sem fulltrúar þjóðarinnar.

Það er mjög erfitt að standa frammi fyrir kröfu um að Alþingi eigi að taka völdin af ríkisstjórninni þegar við getum ekki gert það vegna þess að ríkisstjórnin heldur hér naumum meiri hluta. Þess vegna verður sú umræða að skila sér út í þjóðfélagið að ríkisstjórnin ber ábyrgð á málum, bæði málefnum skuldugra heimila, málum atvinnuleysis og atvinnulausra. Við þingmenn getum einungis notað þennan ræðustól til að benda á það sem miður fer og leggja til úrbætur en lítið er á okkur hlustað. Eins og ég segi hefur þessi ríkisstjórn, að því er virðist, níu líf eins og kötturinn og situr hér á nánast, virðulegi forseti, ég ætla að segja það, lyginni einni saman.

Úr því að hæstv. umhverfisráðherra er í salnum vil ég nefna að ég fékk fyrirspurn í þessari umræðu sem ég gat ekki svarað vegna þess að ég hafði ekki tiltæk gögn og mig langar til að beina henni til hæstv. umhverfisráðherra: Hvaða gögn liggja að baki því að rammaáætlun var breytt frá því að sérfræðinganefndin skilaði af sér og þar til þetta kom fram í þessari þingsályktunartillögu? Hvaða gögn liggja að baki því að þessi ákvörðun var tekin og hvers vegna fá þingmenn (Forseti hringir.) ekki að sjá þau?