141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:48]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Auðvitað vita það allir sem hafa heila hugsun að það er mikið samhengi þarna á milli og það er akkúrat það sem ASÍ bendir á. Verkalýðurinn er búinn að gefast upp á ríkisstjórninni, ég tiltók það áðan. Fleiri tugir þúsunda manna borga félagsgjöld sín í stéttarfélög í gegnum ASÍ og það er það fólk sem er atvinnulaust.

Við skulum vera sanngjörn. Ríkisstjórnin hefur jú staðið sig að einu leyti í því að skapa störf, ríkisstjórnin hefur einungis skapað opinber störf. Það fer varla frumvarp í gegnum þingið án þess að verið sé annaðhvort að stofna nýja ríkisstofnun eða fjölga opinberum störfum. Það er náttúrlega ólíðandi. Þeir sem ekki skilja að almenni vinnumarkaðurinn þarf að vera öflugur og skila miklum tekjum inn í samfélagið og mörgum störfum, skilja ekki samhengið á milli opinbers og almenns vinnumarkaðar.

Hér á landi hafa mál þróast með þeim hætti undir stjórn þessarar ríkisstjórnar að opinberi vinnumarkaðurinn er að verða stærri en almenni vinnumarkaðurinn. Það gerðist á sínum tíma í New York, þá fóru vanhæfir menn með stjórn borgarinnar. Hvað gerði borgarstjórinn? Jú, hann fjölgaði opinberum störfum sem leiddi til þess að borgarstarfsmönnum fjölgaði mikið. Viðkomandi borgarstjóri hélt völdum einungis af því að þegar kom að kosningum voru opinberir starfsmenn og borgarstarfsmenn New York borgar orðnir svo margir að þeir kusu alltaf sömu stjórnvöld yfir sig.

Það er að gerast hér á landi og er hægt að tengja það við ESB-umsóknina. Það er ekki hægt að klára það mál vegna þess að það er alltaf verið að bíða eftir fylgismönnum, stækka opinbera geirann, (Forseti hringir.) fjölga störfum hjá ríkinu sem hagnast þeim beinlínis sem vilja ganga í Evrópusambandið, (Forseti hringir.) svo ég taki dæmi.