141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:50]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur mér á óvart að hv. þingmaður gleymdi einum mjög veigamiklum þætti í atvinnusköpun ríkisstjórnarinnar, sem er sérstaklega á ábyrgð Vinstri grænna, það eru IPA-styrkirnir. Ég er svolítið hissa á því að hv. þingmaður skuli hafa látið það fara fram hjá sér og ekki tekið eftir því að sú mikilvæga atvinnusköpun í boði Vinstri grænna á sér stað.

Síðan er auðvitað annars konar atvinnusköpun sem ekki má heldur gleyma, það eru störf án auglýsinga þar sem ríkisstjórnin hefur verið býsna dugleg við að skapa störf. Ég vil nú vera sanngjarn við ríkisstjórnina og ríkisstjórnarflokkana og halda til haga því sem hún hefur þó verið að gera í þeim efnum.

Það sem er svo athyglisvert í þessu öllu saman er heildarsamhengið. Það er mjög mikið áhyggjuefni að það er ekki bara Alþýðusamband Íslands sem gagnrýnir rammaáætlun á efnahagslegum forsendum heldur líka Orkustofnun. Þar hefur verið bent á að aðferðin við að leggja áherslu á jarðhitaverkefni á sama tíma og vatnsaflsvirkjunum sé ýtt út af borðinu stuðli að ósjálfbærri þróun í orkunýtingu. Það blasir við. Við erum annars vegar með rannsakaða virkjunarkosti þar sem við þekkjum áhrifin. Við hefðum getað farið af stað með þær framkvæmdir og unnið að frekari rannsóknum á sviði jarðhitans á meðan við byggðum upp vatnsaflsvirkjanir og byggt smám saman upp þekkingu á því sviði. Við vitum líka að það er mjög háskalegt að fara í nýtingu á jarðhitasvæðum án þess að gera sér alveg grein fyrir því hvað svæðið þolir.

Þá umræðu fórum við vel í gegnum þegar deilur stóðu um Þeistareyki á sínum tíma. Þess vegna er það enn þá sérkennilegra þegar við horfum á málið í hinu umhverfislega samhengi, á spurningar um hina sjálfbæru þróun og umhverfisvernd. Ríkisstjórnin sendir frá sér mjög undarleg skilaboð hvað þetta varðar þannig að virðuleg stofnun eins og Orkustofnun kýs að hafa býsna stór orð, (Forseti hringir.) að minnsta kosti á mælikvarða opinberra stofnana, um málið.