141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:09]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í blöðunum í morgun birtist auglýsing frá Alþýðusambandi Íslands þar sem sagði m.a. að rammaáætlun hefði ekki verið afgreidd í samræmi við tillögur sérfræðinganefndar og þar af leiðandi hefði ríkisstjórnin m.a. svikið loforð sem voru gefin Alþýðusambandi Íslands.

Í ljósi þessarar yfirlýsingar og umræðna sem hafa verið hér í dag um þetta mál og m.a. í Kastljósinu í kvöld þar sem formaður Vinstri grænna og hæstv. ráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, og Gylfi Arnbjörnsson ræddu þetta hafa sá sem hér stendur og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson óskað eftir því að boðað verði án tafar til sameiginlegs fundar í umhverfis- og samgöngunefnd og atvinnuveganefnd til þess að ræða þessar yfirlýsingar og fara yfir það sem Alþýðusambandið kallar svik ríkisstjórnarinnar. Og ég held að það sé mjög brýnt, frú forseti, að þessi nefndarfundur fari fram áður en umræðum er haldið áfram um þetta mál hér á Alþingi.