141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:16]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er nokkuð ljóst að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar eru fyrir nokkru komnir í þrot í umræðunni (Gripið fram í: Nei, nei.) og leita nú logandi ljósi allra leiða til að koma í veg fyrir lýðræðislega atkvæðagreiðslu um þetta mál í þinginu. (Gripið fram í: Nei, nei, nei, nei.)

Það vita allir sem setið hafa sameiginlega fundi þessara tveggja nefnda að fáir hafa fengið jafnrækilegan tíma til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og einmitt fulltrúar Alþýðusambands Íslands. Það fengu þeir strax í vor þegar málið kom hér fyrst fyrir og svo aftur nú í haust þannig að það er ekkert nýtt í þeim efnum sem þeir hafa fram að færa í þessu. Við höfum farið rækilega yfir sjónarmið þeirra.

Þá er auðvitað rétt að halda því til haga að ekki veit ég til þess að nokkur þingmaður eða nokkur ráðherra í ríkisstjórn hafi lofað Alþýðusambandi Íslands nokkru. Það sem við höfum lofað er að (Forseti hringir.) fara að gildandi lögum sem Alþingi setti hér samhljóða og það erum við að gera samkvæmt því ferli sem þar var kveðið á um. Undir það hlýtur Alþýðusamband Íslands (Forseti hringir.) að beygja sig eins og þingmenn stjórnar sem stjórnarandstöðu.