141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:17]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að það virtist vera sami tónn í hv. formanni umhverfis- og samgöngunefndar og hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra í garð þeirra sem ekki eru þeim sammála.

Ég ætlaði þó að ræða fundarstjórn forseta en ekki efnislega um málið. Þessi umræða er búin að standa drjúglengi en ég á hins vegar eftir að koma inn á mörg efnissvið og hef ekki fengið svör við ýmsum spurningum þannig að ég get haldið þessari umræðu lengi áfram einn án þess að þurfa að grípa til nokkurra annarra úrræða. Tilgangur með umræðu hlýtur, frú forseti, að vera sá að leita lausna, skapa sátt og finna nýja fleti sem ekki hafa verið reifaðir áður, eins og þann að hér virðast kjarasamningar vera komnir í uppnám og stór hluti alþýðu Íslands, þeirra sem vinna hér verðmætu störfin sem eru undirstaða velferðarkerfisins, segir: Hingað og ekki lengra. Er þá til of mikils ætlast að við köllum saman sameiginlegan fund til þess (Forseti hringir.) að leita lausna á þessu máli? Skynsamlegast væri, frú forseti, að fresta umræðunni hér þangað til þeim fundi væri lokið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)