141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:23]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja, eins og kom fram í ræðustóli áðan, að það er ekki rétt þegar sagt er að ríkisstjórnin hafi ekki skrifað undir eitt eða neitt í þessum efnum.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5.5.2011 stendur að mikilvægt sé að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld gangi samhent til þeirra verkefna sem eru fram undan við endurreisn samfélagsins og brýnt að allir aðilar eigi með sér reglubundið og náið samráð á samningstímanum.

Í kaflanum Sókn í atvinnumálum stendur að stjórnvöld séu reiðubúin til samstarfs við samtök launafólks og atvinnurekenda um sókn í atvinnumálum. Um sókn í orku- og iðnaðarmálum segir að stjórnvöld vilji greiða fyrir aukinni fjárfestingu á sem flestum sviðum, einkanlega þeim sem stuðla að auknum útflutningstekjum. Lögð er áhersla á fjárfestingar í virkjunum, að rammaáætlun verði lögð fram á næstu vikum — þetta er vorið 2011 — og fari í viðeigandi ferli. Stjórnvöld reiknuðu með því að hún yrði afgreidd á haustþinginu 2011. Hér erum við rétt fyrir jól, að vetri 2012, og málið er ekki komið lengra en raun ber vitni (Forseti hringir.) og er náttúrlega algerlega ónýtt miðað við það sem lagt var upp með og miðað við það sem gefið er í skyn í þessari yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það er full ástæða til að taka málið á dagskrá hjá þessum þingnefndum, virðulegi forseti, og ég hvet til þess að umræðu um málið verði frestað hér þannig að svo megi verða sem fyrst.