141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þá umræðu sem hefur farið fram upp á síðkastið hefur mátt kannski skilja þannig að tvær hugmyndir að virkjunum vægjust á, annars vegar vatnsaflsvirkjanir og hins vegar jarðhitavirkjanir. Þeim hefur verið teflt að sumu leyti dálítið hvorri gegn annarri, að annað nánast útilokaði hitt, að annað gæti komið í staðinn fyrir hitt.

Það er ekki þannig. Jarðhitavirkjanir eiga fullan rétt á sér og við höfum verið að þróa þær áratugum saman á Íslandi með gríðarlega fínum árangri, fyrst auðvitað til þess að kynda hús en síðan líka til raforkuframleiðslu. Raforkuframleiðsla frá jarðhitavirkjunum stendur undir iðnaðarkostum víða og hefur reynst í meginatriðum vel. Þar höfum við byggt upp mikla þekkingu á alþjóðlegan mælikvarða. Síðast í gær voru fréttir af því að jarðvísindamenn okkar, fræðimenn og verkfræðingar á þessum sviðum væru að hasla sér völl á erlendum vettvangi. Það er heldur ekki nýtt, það hafa þeir verið að gera. Hvers vegna geta þeir gert það? Jú, vegna þess að þeir hafa fengið gríðarlega þekkingu á þessum sviðum með því að við höfum virkjað jarðhita í gegnum áratugina.

Við höfum margvíslega reynslu af þessum virkjunum. Síðan hafa komið fram ábendingar um að það gæti verið ástæða til að fara sér að engu óðslega við uppbyggingu á jarðhitavarmanum til raforkuframleiðslu. Á það hafa vísindamenn bent, það var til dæmis mjög áberandi í umræðunni sem fram fór fyrr á þessu ári og í fyrra um virkjanirnar á Þeistareykjum í tengslum við uppbygginguna á Bakka sem margoft er búið að lofa. Þá hefur verið sagt: Við verðum að fara okkur mjög hægt í þessum efnum vegna þess að við vitum ekki nákvæmlega hvað hver borhola gefur. Það tekur tíma, hún þarf að blása og við þurfum smám saman að byggja upp þá vitneskju sem við fáum með rannsóknum og borunum og þess háttar til að geta tekið um það ákvörðun hvað við getum fengið mikla raforku út úr þessum virkjunum. Þetta er eðli þeirra, þær þróast og það tekur tíma að byggja þær upp og fá úr því skorið hvað þær geta gefið okkur mikla orku.

Þessu er öfugt farið með vatnsaflið. Menn virkja það út frá ákveðnum verkfræðilegum og fræðilegum forsendum og hafa vitneskju um það fyrir fram hversu mikið afl þær gefa. Þetta sáum við í hinu stórkostlega verkfræðilega afreki sem Kárahnjúkavirkjun er, hvaða skoðun sem menn hafa að öðru leyti á Kárahnjúkavirkjun. Þetta undirstrikar að það er munur á þessum virkjunum en þær eiga báðar fullan rétt á sér.

Nú er búið að taka þá ákvörðun í þingsályktunartillögunni að ýta til hliðar vatnsaflskostunum, setja þá í biðflokka, jafnvel þó að þeir séu fyrirsjáanlega hagkvæmastir af því að menn þekkja nákvæmlega hvert magnið verður af þeirri orku sem þaðan kemur. Við vitum líka hver umhverfisáhrifin eru, þau eru hverfandi til dæmis í neðri hluta Þjórsár þannig að það er þá búið að tefla öðrum rökum fram gegn þessum virkjunum.

Stóra málið í þessu öllu saman er að átta sig á því af þessum ástæðum sem ég hef rakið hérna að vatnsaflsvirkjanirnar eru mjög fyrirsjáanlegar. Við vitum hvaða orku við fáum út úr tilteknum framkvæmdum sem við byggjum upp á tilteknum gefnum forsendum. Við vitum um orkuna sem út úr þessum virkjunum kemur á annan veginn og síðan þurfum við að geta á hinn bóginn á sama tíma smám saman byggt upp reynsluna, þekkinguna og vitneskjuna um orkuna sem kemur út úr jarðhitanum. Þetta er ástæðan fyrir því að það er svo mikilvægt þegar við tökum ákvörðun um þennan ramma utan um það hvað við ætlum að nýta, vernda, virkja og kanna betur að við séum með báða þessa kosti undir í einu þannig að við getum unnið í sem bestu skipulagi að þessari uppbyggingu. Þessi tillaga núna slítur þetta í raun og veru í sundur og þetta er ástæðan fyrir því að Orkustofnun er gagnrýnin á þetta, hún bendir á að með þessu sé markmiðum um sjálfbæra uppbyggingu raforkuframleiðslunnar stefnt í hættu.

Það er þetta sem er svo alvarlegt, ekki bara út frá efnahagssjónarmiðum, heldur líka út frá umhverfissjónarmiðum og (Forseti hringir.) sjónarmiðum sjálfbærrar nýtingar.