141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:37]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta er vissulega áhugaverð afleiðing. Ég held að það hafi verið í gær sem við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson ræddum um það sem kemur fram í áliti meiri hlutans í nefndarálitinu, að vara við öllu mögulegu og mála mjög dökka mynd af nýtingu jarðvarmavirkjana á Reykjanesi, að það hafi verið samviskubit þeirra þegar þeir sáu hvert var komið. Það verður áhugavert að ræða við þá um olíustarfsemina, olíuleitina, af því að það er rétt hjá hv. þingmanni að þar virðist ekki vera neinn bilbug að finna á hópnum sem heild.

Það sem ég vildi ræða aðeins meira um við hv. þingmann er samhengi hlutanna, samhengi hagvaxtarspánna, forsendur þess að geta byggt hér upp. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki hreinlega yfirlýst markmið núverandi ríkisstjórnar — þó að ég eigi mjög erfitt með að skilja það að allir þingmenn Samfylkingarinnar taki þátt í því — að stöðva alla orkunýtingu.

Við getum rifjað upp að forsendur hagvaxtar á liðnum árum var uppbygging í Helguvík, bæði í orku og síðan í uppbyggingu á álverinu sjálfu. Vinstri grænir og ýmsir í Samfylkingunni voru sífellt á móti því þó að ýmis önnur öfl innan Samfylkingarinnar þættust vera að tala með því. Það voru alls konar hlutir sem þvældust fyrir á sama hátt og núna í Þingeyjarsýslunum. Sagt er að farið verði í uppbyggingu, sagt er að fjármagn þurfi beint frá ríkisvaldinu, 2,6 milljarðar, samt eru engir peningar látnir í það, ekki króna. Sem þýðir væntanlega það að enginn hagvöxtur verður, ekki frekar en á árunum 2009, 2010, 2011 og 2012, vegna þess að það er engin uppbygging.

Þá er það spurningin hvort fjárlögin séu ævinlega blöff og til hvers menn setja þetta inn ef aldrei á að virkja, (Forseti hringir.) af því að það er hin yfirlýsta stefna.