141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að full ástæða sé fyrir hv. þingmann að hafa áhyggjur af olíuleitinni. Ég held að það hafi verið í dag frekar en í gær sem ég sá mikla grein í Morgunblaðinu eftir fyrrverandi ráðherra úr Alþýðubandalaginu og einn af helstu forkólfum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem skrifaði grein í Morgunblaðið um olíurannsóknir og Drekasvæðið og velti því upp hvenær vinstri grænir hefðu gerst olíuleitarflokkur. Mér fannst tónninn vera sá að vara við þessu og allt í lagi með það. Sá ágæti maður hefur lagt margt gott fram og barist fyrir náttúruvernd og umhverfisvernd alla sína tíð og á ekkert nema gott skilið fyrir það. En það er alveg ljóst að pressa er og verður innan Vinstri grænna að leggja stein í götu olíuleitarinnar.

Virðulegi forseti. Það kom fram í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar þegar hann mælti fyrir málinu að hann túlkaði málið í rauninni þannig að deilurnar snerust fyrst og fremst um sex virkjunarkosti, eða fimm og hálfan eins og hann orðaði það reyndar. Ég veit ekki hvort deilurnar sem hann vitnaði til eru þá innan stjórnarflokkanna. Það sem við erum að deila á eru að sjálfsögðu vinnubrögðin og að menn skyldu kasta sáttinni á glæ.

Svo er ákveðin mótsögn í lokaorðum í nefndaráliti meiri hlutans þar sem segir, með leyfi forseta:

„Með samþykkt tillögunnar eru líkur á að sátt skapist um leikreglur í erfiðum deilum sem staðið hafa um landnýtingu undanfarna fjóra til fimm áratugi.“

Ég veit ekki hvort einhver meining er að baki orða sem þessara þegar vitað er að búið er (Forseti hringir.) að setja allt í háaloft einmitt með þessu fikti.