141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:44]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum öll farin að sjá hvað hefur þegar gerst með þessari rammatillögu. Það liggur fyrir að strax í upphafi var búið að ýta til hliðar vatnsaflsvirkjununum og meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar búinn að ýta burt, sýnist mér, í meginatriðum til margra ára jarðhitavirkjununum. Ég hengdi mig í möguleikann um olíuleitina, nú segir hv. þingmaður að líklegt sé að olíuleitinni verði líka ýtt út af borðinu, en ég er bjartsýnismaður og segi: Það er ekki öll von úti enn, grútartýrurnar eru að minnsta kosti enn þá til staðar.

Virðulegi forseti. Þetta er ekkert gamanmál. Það sem við sjáum hérna er sá alvarlegi veruleiki að verið er smám saman að þrengja að þeim möguleikum sem við höfum til skynsamlegrar sjálfbærrar orkunýtingar í þágu lands og þjóðar, og sem búa til verðmæti og störf. Við sjáum þetta í rauninni líka ef við skoðum það í samhengi við fjárlagafrumvarpið.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson vakti athygli á því fyrr í dag að í fjárlagafrumvarpinu sé til dæmis ekki að finna þá 2,6 milljarða kr. sem þurfa að vera þar til staðar til að hægt sé að fara í atvinnuuppbygginguna á Bakka. Þó eru hæstv. ráðherrar búnir að segja okkur að við þurfum að búa okkur undir eitthvað gríðarlega stórt í þeim efnum. Forsendan að mati sveitarstjórnarmanna á svæðinu er sú að 2,6 milljarða þurfi í uppbyggingu á innviðum samfélagsins til að hægt sé að fara í slíkt verkefni.

Hin pólitíska niðurstaða er sú að hafa þá tölu ekki þarna inni. Af hverju er það? Jú, það er alveg augljóst mál, það er vegna þess að verið er að girða fyrir uppbyggingu á orkukostunum sjálfum. Og ef við höfum ekki orkukostina er auðvitað tómt mál um að tala einhverja atvinnulega uppbyggingu sem byggir á orkunýtingunni. Málið er því allt saman að ljúkast upp fyrir okkur, þetta er að verða mjög skýrt. Verið er að loka á orkukostina og þar með er búið að loka á það að farið verði í þá stóru kosti og uppbyggingu sem er búið að lofa (Forseti hringir.) íbúum í Þingeyjarsýslum, ekki bara einu sinni, ekki tvisvar, heldur óteljandi oft.