141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið farið nokkuð oft yfir það hvernig málunum var teflt í mikla tvísýnu þegar ákveðið var að hæstv. tveir ráðherrar færu um það mál höndum sínum. Það var út af fyrir sig gert á sínum tíma í miklu trausti. Við samþykktum þau lög vegna þess að við töldum að með því væri einfaldlega verið að búa til eins og ég hef kallað það, nýja stoppistöð, þar sem menn gætu þá skoðað álitamál sem upp kæmu og þá kosti og galla til nýtingar, til verndunar eða í biðflokk.

Út af fyrir sig má segja sem svo að það hafi ekki þurft að vera svo óskynsamlegt en hins vegar er búið að eyðileggja þá aðferð vegna þess að ráðherrarnir brugðust því trausti sem á þá var lagt og það er það vonda í málinu. Nú segja ráðherrarnir og stjórnarliðar: Ja, þetta hlaut alltaf að lokum að verða pólitískt mat. Það má svo sem segja að það sé það á Alþingi að lokum, að það sé pólitískt mat, og þá eru það tveir pólitískir kostir sem við stöndum frammi fyrir. Annars vegar sá kostur að nýta með skynsamlegum, ábyrgum, sjálfbærum hætti orkuauðlindirnar okkar til atvinnusköpunar og verðmætasköpunar. Hins vegar að gera það ekki. Það eru í raun og veru þeir tveir kostir sem við stöndum frammi fyrir, annars vegar að nota þetta til atvinnuuppbyggingar, verðmætasköpunar í landinu eða að gera það ekki. Og það er í raun og veru sá kostur sem orðinn er ofan á núna.

Hv. þingmaður spyr: Hvað er hægt að gera til að bregðast við því? Það verður erfitt, við gerum okkur alveg grein fyrir því. Málinu verður ýtt áfram inn í það ferli að það verður erfitt, en eitt skulum við alveg hafa í huga: Þetta er ekki rammaáætlun. Punktur. Þetta er rammaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þetta er rammaáætlun sem hún hefur búið til út frá pólitískum forsendum, ekki þeim forsendum sem upp var lagt af stað með þegar málið var hafið á sínum tíma fyrir meira en áratug. Þess vegna er málið að mínu mati því miður komið í þá stöðu að ekki verður það varanlega fyrirkomulag sem við reyndum að búa til heldur eitthvað allt annað, miklu verra, og við erum komin aftur ofan í gömlu skotgrafirnar (Forseti hringir.) með málið.