141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:56]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég fór aðeins yfir efnahagsleg áhrif af rammaáætlun og því sem fram kemur í fjárfestingar- eða framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar um framtíðarnýtingu á orkuauðlindum okkar. Í umræðunni í þinginu hefur komið fram hjá fulltrúum stjórnarflokkanna að eitthvað nýtt eigi að gerast í atvinnumálum hérna. Við sjáum áherslur ríkisstjórnarinnar endurspeglast í fjárfestingaráætlun sem lögð var fram í vor og var svo endurnýjuð núna í haust. Þær voru kynntar með miklum lúðraþyt. Þar sjáum við áherslur sem sagðar eru nýjar en í sjálfu sér er ekkert nýtt í þeim. Þar kemur þó inn grænn fjárfestingarsjóður, grænkun fyrirtækja, hækkað framlag í Kvikmyndasjóð og skapandi greinar, eins og það er orðað.

Hefur þingmaðurinn einhverja trú á því ef þetta er lagt á vogarskálarnar að hægt sé að byggja upp á skömmum tíma jafnarðsama og -atvinnuskapandi framleiðslu og mundi verða með nýtingu orkuauðlindanna? Þarf að vega það og meta í einhverju mótvægi? Er ekki hægt að gera það samhliða? Köstum við ekki annars frá okkur tækifærum sem við gætum verið að vinna að á orkusviðinu? Gætum við ekki fylgt hinni nýju sýn, (Forseti hringir.) eins og það er orðað, samhliða þessu (Forseti hringir.) og látið það þannig verða að tvöföldum ávinningi fyrir samfélagið?