141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú svo ánægjulegt að sú mikla gróska sem er hér í nýsköpun og óhefðbundnum atvinnugreinum, þ.e. ekki í fiskvinnslu eða iðnaði eða einhverju slíku, er að megninu til sjálfsprottin eða varð til löngu fyrir tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú er. Það er áhyggjuefni við fjárfestingaráætlunina að hún styður ekki á neinn hátt við þetta nýjabrum allt saman, hvað þá við hefðbundnar atvinnugreinar.

Eitt þarf ekki að útiloka annað heldur getur það allt unnið saman, að sjálfsögðu. Það er ekki þannig að á fjögurra ára tímabili veiði menn bara fisk og á næstu árum vinni menn ál og svo framleiði þeir kvikmyndir, heldur er þetta heild sem vinna þarf í og umhverfið þarf jafnvænt fyrir alla þessa aðila. Það má m.a. lesa úr þeirri gagnrýni sem forusta ASÍ hefur haft uppi í dag, að heildarumhverfið sem boðið er upp á sé ekki nógu gott. Þess vegna telja þeir ekki ástæðu til að spjalla lengur við ríkisstjórnina.

Ef við skoðun fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar er þar afar lítið nýtt sem hvetja mun til fjárfestinga, hagvaxtar og slíks. Þar eru komin ný og glæsileg nöfn á þá sjóði sem áður var veitt til af safnliðum fjárlaganefndar, sem er í sjálfu sér ágætt, en það er ekki eins og verið sé að finna upp neitt nýtt í áætluninni (Forseti hringir.) sem skapa mun betra líf fyrir borgara þessa lands.