141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér áætlun ríkisstjórnarinnar og reyndar yfirlýsingu hennar frá 5. maí 2011 sem gerð var í tengslum við kjarasamninga. Hefur ASÍ gagnrýnt mikið hversu lítið hefur gengið eftir af því sem þar kemur fram.

Ríkisstjórnin hafnar þeim ásökunum í dag. Samt segir í yfirlýsingu frá 5. maí 2011 að stjórnvöld séu reiðubúin til samstarfs við samtök launafólks og atvinnurekenda um sókn í atvinnumálum og það verði reglubundið og náið samráð á samningstímanum. Um sókn í orku- og iðnaðarmálum segir sérstaklega að stjórnvöld vilji greiða fyrir aukinni fjárfestingu á sem flestum sviðum, einkanlega þeim sem stuðla að auknum útflutningstekjum. Lögð er áhersla á fjárfestingar í virkjunum og gerð raforkusamninga á viðskiptalegum grundvelli.

Síðan segir að leggja hafi átt rammaáætlun fram á síðasta haustþingi og ljúka við hana haustið 2011. Þar segir líka að miklu skipti að auka fjárfestingar lítilla og meðalstórra fyrirtækja og að kynna erlendum fjárfestum Ísland sem fýsilegan fjárfestingarkost. Stefnt er að því að veita aukna fjármuni til markaðssóknar í því skyni.

Er hægt að reikna með því miðað við núverandi rammaáætlun og það stopp sem hún kallar á í fjárfestingum í orkufrekum iðnaði að eitthvað af því gangi eftir? Fylgir hér hugur máli í ljósi þess að ekki er sett fjármagn til uppbyggingar innviða t.d. á Norðausturlandi, sem nauðsynlegir eru til að menn geti hafið framkvæmdir á Bakka, sem stjórnvöld (Forseti hringir.) þykjast þó styðja af heilum hug? (Forseti hringir.) Hvað á maður að halda?