141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:06]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég byrjaði áðan að fara aðeins yfir muninn á jarðvarmavirkjunum og vatnsaflsvirkjunum. Ég held að það sé nauðsynlegt í ljósi þess hvernig umræðan hefur þróast. Af því sem hefur komið fram hefur kannski allt að því mátt skilja það þannig að við ættum að láta jarðvarmavirkjanir algjörlega eiga sig vegna þeirrar óvissu sem er í kringum slíkar virkjanir. Ég vil taka það skýrt fram að ég tel að svo eigi alls ekki vera. En eðli þessara virkjunarkosta er auðvitað mjög mismunandi. Í vatnsaflsvirkjunum eru hlutirnir mjög fyrirsjáanlegir. Þar er í raun hægt að hanna virkjunina, byggja hana og frá þeim degi sem hún fer að starfa er vitað hversu mikil framleiðslan verður og um það þarf engum blöðum að fletta. Allt er mjög fyrirsjáanlegt og einfalt í kringum vatnsaflsvirkjunarkostina og því er það svo í hrópandi ósamræmi þegar þeir eru teknir út, nánast algjörlega, út úr nýtingarflokki rammaáætlunar, þeir virkjunarkostir sem í raun hafa ekki verið miklar deilur um. Þar er ég að vitna sérstaklega til Holta- og Hvammsvirkjana í neðri hluta Þjórsár sem eru í eðli sínu rennslisvirkjanir og hafa mjög lítil áhrif á umhverfi sitt, mjög hagkvæmar bæði í umhverfislegu og efnahagslegu tilliti.

Á sama tíma virðist vera lögð áhersla á aukna sókn og auknar framkvæmdir eingöngu á jarðvarmasviðinu. Auðvitað eigum við að halda áfram þar og það er ágætt að rifja upp reynslu okkar af jarðvarmavirkjunum. Í júní 1974 var Kröflunefnd skipuð. Viðvarandi raforkuskortur hafði verið á Norðausturlandi og afla þurfti raforku. Þar var reist fyrsta stórvirkjunin í jarðgufu til rafmagnsframleiðslu á Íslandi og tilraunaboranir hófust strax þar sama ár. Síðan var sett niður 30 megavatta túrbína á þann virkjunarkost og hún var síðan stækkuð á árunum 1995, 1996 eftir að eftirspurn eftir rafmagni fór að vaxa á ný. Þá höfðu tækniframfarir orðið gríðarlega miklar. Í stað þess að vera bundin við það að bora eingöngu beint ofan í jörðina var farið að notast við svokallaðar skáboranir, sem er til þess að gera ekki nema nokkurra ára gömul tækni og er í fullri þróun. Það bar mikinn árangur við gufuöflunina og boraðar voru nýjar holur, eldri holur voru lagfærðar og þannig fékkst næg gufuorka til að knýja nýja 30 megavatta vél. Þarna voru því komin 60 megavött. Síðan eru menn með hugmyndir um að stækka þetta enn meira.

Nákvæmlega þessi tækni er að breytast mjög mikið. Varðandi nýtinguna á jarðvarmanum eru orðnar til lághitatúrbínur sem menn geta notað til þess að nýta orkuna betur og sú tækni á örugglega eftir að þróast þannig að við munum sjá enn betri nýtingu í framtíðinni á jarðvarmavirkjunum, aukna framleiðslu og fleiri megavött út úr hverri einingu. Skáboranir eru auðvitað stórkostleg framför vegna þess að með því að beita þeirri tækni þurfa menn ekki að fara um land og raska því. Þeir geta staðsett virkjanirnar í töluverðri fjarlægð. Í dag er hægt að skábora allt upp undir 1,5 kílómetra, í olíuiðnaði eru menn farnir að skábora eitthvað á annan tug kílómetra og við eigum alveg örugglega eftir að sjá þá tækni þróast.

Það er ekki bara á Íslandi sem ör þróun er í jarðvarmavirkjunum. Það segir til dæmis í skýrslu um rammaáætlun, með leyfi forseta:

„Langstærsti hluti varmaorku jarðar er hins vegar í heitu, þurru, þ.e. þéttu bergi. Nokkur tilraunaverkefni eru nú í gangi og talsvert rannsóknafé mun nú lagt í að þróa tækni til að gera þennan varma nýtanlegan en meðan tæknin er ekki fyrir hendi er þessi varmalind ekki auðlind.“ — Þ.e. þessi almenni varmi í jörðinni. — „Takist það hins vegar með framförum í tækni“ — sem við skulum ætla að verði — „að nýta þennan varma hefur varmaauðlind jarðar stækkað gífurlega og væri nánast óþrjótandi.“

Það skyldi þó ekki vera að með því að þróa okkur áfram á þessum vettvangi, virðulegi forseti, eigi jarðvarminn almennt í heiminum, þegar við náum að beisla hann í hinu stóra samhengi, eftir að verða framtíðarorkuauðlind jarðarinnar (Forseti hringir.) í mjög stóru samhengi.